148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

leiga á fasteignum ríkisins.

81. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör. Það var upplýsandi að heyra hversu margar eignir okkar eru, eða 95. Það væri jafnframt, held ég, gagnlegt fyrir eigendur þessara fasteigna að fá að sjá raunverulegar tölur. Miðað við það dæmi sem tekið var hér fyrir áramót — sem ég ætla nú ekki að sé einstakt varðandi þennan tiltekna embættisbústað — þá er það alveg ljóst að a.m.k. 500 fermetra einbýlishús á Bergstaðastræti sem leigt er út á 86.000 kr. er mjög fjarri markaðsvirði á þeim stað. Þannig að ég held að það væri nauðsynlegt fyrir íslenskan almenning, svo að traust ríki á stjórnvöldum landsins, að við fáum bara upplýsingar upp á borðið um það hvernig þessu er háttað með aðra embættisbústaði.

Í framhaldi af lokasvarinu varðandi kvaðir á framleigu þá vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra viti til þess að eitthvert eftirlit sé með framleigu á þessum eignum, hvort það sé eitthvert virkt eftirlit nú þegar t.d. skammtímaleiga til ferðamanna er mjög vinsæl víða um land, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land, hvort einstaka embættismenn eða forstöðumenn eru t.d. að nýta sér slíka framleigu.