148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég las í morgun mjög framsækna og góða skýrslu sérstaks sendiherra mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um rétt okkar allra til bestu mögulegrar heilsu. Í skýrslunni er að finna mikilvæga stefnubreytingu í geðheilbrigðismálum og varpar hún ljósi á þann skort á langtímahugsun og nýsköpun sem einkennir þennan málaflokk hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Í skýrslunni er m.a. tekið á því hvernig oftrú á líflæknisfræðilega líkanið við stefnumótun hefur gengið of langt og er nú orðið ómóttækilegt fyrir breytingum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Innlendar geðheilbrigðisáætlanir hafa tilhneigingu til að endurspegla líflæknisfræðilegar áherslur og eiga til að skyggja á viðhorf og markvissa þátttöku frjálsra félagasamtaka, notenda og fyrrverandi notenda geðheilbrigðisþjónustu og sérfræðinga úr ýmsum greinum öðrum en læknisfræði.“

Í skýrslunni er sagt að brýn þörf sé fyrir áherslubreytingar og ættu þær að leiða til þess að nýsköpun í stefnumótun sé sett í forgang á vettvangi íbúanna sjálfra með áherslu á félagslega ákvörðunarþætti og að horfið sé frá því í ráðandi læknisfræðilegu líkani sem leitast við að lækna þá einstaklinga með því að beina sjónum að röskunum. Í tilmælum kemur fram að auka þurfi fjárveitingar til óhefðbundinnar geðheilbrigðisþjónustu og stuðningslíkana í tengslum við hana. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Jafningjastuðningur er óaðskiljanlegur hluti þjónustu sem grundvallast á bata, þegar hann virkar. Hann vekur vonir í brjósti, og eflir einstaklinga í því að læra hverjir af öðrum.“

Forseti. Geðheilsa – eftirfylgd og Hugarafl eru teymi sem hafa sl. 15 ár boðið upp á úrræði í ætt við þau sem talin eru æskileg í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þar sem nú eru uppi áform um að leggja niður Geðheilsu – eftirfylgd með því að aðskilja það frá Hugarafli og draga inn í annars konar teymi sem byggja á einhæfri nálgun á geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. umönnun, forræðishyggju og lyfjum, langar mig að leggja sérstaka áherslu á að hæstv. heilbrigðisráðherra kynni sér skýrsluna og endurskoði nálgun sína. Hér höfum við kjörið tækifæri til að vera leiðandi í þessum málaflokki frekar en eftirbátar, eins og er því miður orðið allt of algengt.