148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Hér er komin gagnrýni á gagnrýni um gagnrýni og best að ég bæti um betur og gagnrýni þá gagnrýni á gagnrýnina um gagnrýnina. Þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns kom upp í huga mér lag með Megasi, Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu, en ég þakka hv. þingmanni fyrir að eiga orðastað við mig um málið.

Ég veit sannast sagna ekki hvernig ég á að svara því — þetta hefur ekki komið skýrt fram hjá mér í greininni — að ég sé á einhvern hátt að biðjast undan því að við eigum í málefnalegum umræðum. Það er sjálfsagt að gagnrýna ríkisstjórn og gagnrýna það sem þar er gert. Mér fannst t.d. margt til í orðum hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar sem talaði á undan mér varðandi það að ríkisstjórnin komi með fleiri mál inn á þing. Það þýðir ekki að maður geti ekki haft þá skoðun á gagnrýninni að hún sé á einhverjum forsendum gamaldags átakapólitík, sem mér finnst vera í þessu tilfelli. Það að tala um það sem svik þegar Vinstri græn lofa 40–50 milljarða útgjaldaaukningu á öllu kjörtímabilinu fyrir síðustu kosningar og tekst að auka útgjöldin á einum mánuði um 19 milljarða, sem er allt upp í 47,5% af loforðinu fyrir allt kjörtímabilið, finnst mér einfaldlega gamaldags átakapólitík þar sem fólk ræðir í raun ekki hlutina á sanngjarnan máta heldur reynir að komast inn í fyrirsagnir með upphrópunum. Það er það sem ég kalla gamla átakapólitík.

Af hverju ætti hv. þingmaður að taka höndum saman með okkur? Hann verður að eiga það við sjálfan sig. Við bætum ekki né breytum vinnubrögðum á Alþingi fyrr en við tökum öll höndum saman, fyrr en við erum öll tilbúin til að setjast niður og ræða hvernig við ætlum að gera hlutina. Sjálfur ber ég mikla von í brjósti. Ég mun í það minnsta rétta út höndina og ég vona að fólk geti tekið höndum saman til að bæta vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnmálum almennt.