148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt af þeim miklu og merkilegu málum sem við fáum úr EES-samstarfinu, frumvarp til laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Ég hef fulla samúð með áheyrendum ef þeir skilja illa um hvað frumvarpið fjallar, það er svo sem ekki skrýtið ef maður sekkur sér ekki eitthvað í það.

Eftir yfirlegu mína á frumvarpinu — ég tek fram að ég er ekki sérfræðingur í efninu en kann að fletta hlutum upp og mér finnst gaman að læra um þetta — verð ég að segja að ég er efnislega sammála frumvarpinu, mér finnst þetta mikilvægt frumvarp. Mér finnst mjög mikilvægt að gegnsæi sé aukið í þessum viðskiptum. Eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan, og kemur reyndar fram einhvers staðar í greinargerð frumvarpsins, ef ég man rétt, nema ég hafi lesið það annars staðar við lestur málsins, að þetta er eitt af því sem átti þó nokkurn hlut í hruninu, fjármálaáfallinu árið 2008. Þá kom fram gagnrýni á það að slík viðskipti væru ekki nógu gegnsæ. OTC stendur fyrir „over-the-counter“ á ensku og er tegund af viðskiptum sem eiga sér ekki stað í verðbréfahöll eða þvílíkum stað, heldur bara manna á millum eða félaga á millum eða hvað eina og mjög erfitt að hafa einhverja yfirsýn eða gegnsæi í því nema til komi regluverk eins og þetta. Ég er því hlynntur málinu.

Það sem kom hins vegar líka upp við lestur þess, og ég hafði tekið eftir áður við umfjöllun málsins og sambærilegra mála, er ákveðið vandamál sem við stöndum frammi fyrir, Ísland, í sambandi við EES-samninginn, vandamál sem er ekki nýtt af nálinni og var varað við strax árið 1992 og hefur verið varað við alla tíð síðan, að fyrr eða síðar fara kröfurnar gagnvart okkur vegna EES-samstarfsins að ganga fullnærri stjórnarskránni okkar, nánar tiltekið 2. gr. sem fjallar um dómsvald.

Nú man ég að á 145. þingi var hér einnig mál til umræðu þar sem sami vafi var uppi og þetta virðist vera orðið umræðuefni sem festist mjög gjarnan við þessi mál upp á síðkastið vegna þess að það er í þessa átt sem okkar samstarf er að þróast, sem þessar tilskipanir og reglugerðir eru að þróast og sér í lagi reglugerðirnar auðvitað.

Þegar settar eru á laggirnar stofnanir í Evrópu sem eiga að hafa einhvers konar dómsvald, ég vil ekki kalla það dómsvald í sjálfu sér en svona dómsvaldslíki, ætla ég að kalla það í bili, þá slær það óhjákvæmilega mjög nærri þeirri grundvallarforsendu að á Íslandi gildir stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er tilgreint að dómstólar fari með dómsvaldið.

Ég hef heyrt sögur af lagaflækjum sem ég kann ekki að fara með í sambandi við það hvort EES-samningurinn standist hreinlega stjórnarskrá. Ég ætla ekki að fara með það, vegna þess að í fyrsta lagi kann ég ekki að fara með það og ég held að það sé of löng og gömul saga til að fara með í þessu tiltekna máli. Þetta tiltekna mál hefur hins vegar áður komið til umræðu. Sambærileg mál hafa komið til umræðu mjög nýlega, ekkert bara á 145. þingi 2016, heldur líka síðar, á seinasta kjörtímabili, hinu stutta. Það varðar alltaf þessa hluti.

Nú hafa komið fram einhver lögfræðileg álit um það: Jú, jú, þetta stenst svo sem stjórnarskrá. En enn þá er það ekki ljóst, alla vega ekki fyrir mér og ekki fyrir fleirum sem hafa skoða það, og ekki að mati núverandi hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma. Þá sagði núverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að hún teldi að það mál, sem er rökstutt á sama grunni og þetta, stæðist ekki stjórnarskrá. Má vel vera að hæstv. forsætisráðherra hafi skipt um skoðun og ég kann alveg að meta það. Það er ekkert að því að skipta um skoðun, sér í lagi þegar maður kynnir sér málin betur, en þá finnst mér samt að við þurfum að heyra þann rökstuðning, finnst mér persónulega. Það segi ég aftur að ég er efnislega sammála málinu sjálfu.

Ég kemst heldur ekki hjá því að nefna einfalda lausn á þessu vandamáli, lausn sem ég myndi leggja til að innleiða, þ.e. að setja ákvæði í stjórnarskrá sem heimilar framsal ríkisvalds. Sumum líst mjög illa á það, finnst það vera einhvers konar uppgjöf gagnvart því að við séum að gefa upp á bátinn sjálfstæði Íslands. En slíkt ákvæði fæli í sér að ávallt væri hægt að taka slíkt framsal til baka, ég tala nú ekki um ef það væru lýðræðislegir öryggisventlar á því, svo sem að einhvern aukinn meiri hluta þings þyrfti til samþykktar eða þjóðaratkvæðagreiðslu eða jafnvel hvort tveggja, hver veit. En hugmyndir hafa komið fram um slíkt ákvæði, þær eru ekki nýjar af nálinni reyndar. Það hefur oft verið kallað eftir því, löngu fyrir tíma þessa ágæta plaggs, sem í daglegu tali er kallað frumvarp stjórnlagaráðs. En þar er nefnt framsal ríkisvalds, í 111. gr. Það er ein af mörgum greinum sem þar er að finna sem ættu ekki að vera neitt sérstaklega umdeildar af þeim aðilum sem eru hvað mest á móti frumvarpi stjórnlagaráðs.

Ég átta mig á að aðilar í samfélaginu innan ákveðinna flokka eru á móti slíku ákvæði. Mér finnst ekki ólíklegt að einhver sé hreinlega á móti frumvarpi stjórnlagaráðs í heild sinni vegna þessa ákvæðis, en það er mikilvægt ef við ætlum að halda áfram þessu samstarfi og ég legg til að við gerum það, en þá þurfum við svona ákvæði. Við þurfum að greiða úr þessu vegna þess að mér finnst það ekki ganga til lengdar, af því að við erum að taka þátt í mjög eðlilegu, mikilvægu, jákvæðu og uppbyggilegu samstarfi eins og EES, að við séum þá alltaf í leiðinni einhvern veginn að greiða atkvæði með 33 atkvæðum gegn minni hlutanum um mál sem varða 2. gr. stjórnarskrárinnar, dómstólana sjálfa. Mér finnst það bara rangt. Mér finnst það ekki alveg passa við stjórnskipunina okkar heldur.

Mér finnst þetta mál og sambærileg mál sem sífellt vekja upp slíkar spurningar kalla á að við endurskoðum stjórnarskrána. Við höfum fullt tækifæri til þess. Fyrir okkur liggur prýðilegt plagg, ekki fullkomið plagg, en prýðilegt plagg sem heitir frumvarp stjórnlagaráðs. Af því kemur frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í kjölfarið á því þingskjal 1111 frá því þingi, 141., þar sem er að finna þriðju útgáfuna af því ágæta plaggi. Við gætum alveg rökrætt það hér, komum væntanlega og vonandi til með að gera það fyrr eða síðar. Mér finnst mikilvægt að við nefnum þetta vegna þess að við erum á Alþingi svolítið að trassa stjórnarskrána okkar. Mér finnst það mjög vont.

Það eru þrjár útgáfur til af þessu ákvæði sem eiga uppruna úr frumvarpi stjórnlagaráðs, þ.e. það sem er að finna í drögum stjórnlagaráðs, annars vegar í frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hins vegar í því sem er að finna í breytingartillögunni, þ.e. í framhaldsnefndarálitinu, þingskjali 1111, sem var 113. gr. þess fylgiskjals sem var ný útgáfa af frumvarpinu í heild sinni.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að samningar á borð við EES og vissulega ESB færu í þjóðaratkvæðagreiðslu, eitthvað sem mér finnst góð hugmynd. Þótt ég sé ævinlega þakklátur fyrir það að við séum í EES og telji það hafa verið rétta ákvörðun á sínum tíma, þá held ég að það hefði ekki skemmt neitt fyrir málinu ef það hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel það sjálfsagðan rétt þjóðarinnar að koma að ákvörðunum eins og þessum.

Í þingskjali 1111, sem er líka komið af eða grundvallað á frumvarpi stjórnlagaráðs, er talað um að þrír fimmtu hlutar Alþingis þurfi að samþykkja samninga eins og EES. Sé það minna en það, þó meiri hluti, þá skuli málið fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er önnur lausn. Ef ekki nást þrír fjórðu hlutar Alþingis þá þarf væntanlega að skoða málið betur. En ég vek athygli á því að ef það ákvæði hefði verið í stjórnarskrá Íslands árið 1992, þá hefði EES-samningurinn samt farið í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að ekki var það mikill meiri hluti, það var næstum því 60%, það var 58% eða 59%, eitthvað því um líkt, á þeim tíma af greiddum atkvæðum, sjö sátu hjá.

Mér finnst mikilvægt að við útkljáum þetta á einhverjum tímapunkti. Mér finnst mikilvægt að við getum haft það á hreinu að mál eins og þessi séu ekki hugsanlega stjórnarskrárbrot. Mér finnst mikilvægt að Alþingi sé ekki einhvern veginn klofið niður meira eða minna um miðjuna eða svo um það hvort það samþykki EES-mál trekk í trekk sem hugsanlega brjóti á 2. gr. stjórnarskrárinnar. Mér finnst það óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, og við verðum einhvern veginn að takast á við það. Lausnin er mjög einföld. Við endurskoðum stjórnarskrána og setjum inn þau ákvæði sem við þurfum, eins og framsalsákvæðið, sem ætti ekki að vera neitt vandamál ef fólk fær sitt næði, sinn tíma, til að rökræða það til enda. Enda hefur fólk ákveðnar áhyggjur af því máli.

Að því sögðu ítreka ég að ég er efnislega sammála frumvarpinu, en kem ekki til með að styðja það, alla vega ekki með því að greiða því atkvæði að svo stöddu vegna þessa atriðis, af því að ég ætla ekki að taka áhættuna meðvitað um það að samþykkja mál sem ég er ekki sannfærður um að brjóti ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Alveg hugsanlegt að mér snúist hugur, en ég hef alla vega ekki enn þá heyrt nóg til að sannfæra mig um að það sé óhætt. Ég læt það því bíða seinni tíma. Við erum nú bara í 1. umr., það er næg umræða eftir.

Ég hygg að þetta sé enn eitt málið sem krefur okkur um það að taka heildræna endurskoðun stjórnarskrárinnar, grundvalla það á frumvarpi stjórnlagaráðs, taka það að sjálfsögðu alvarlega og klára það mál í stað þess að vera sífellt einhvern veginn að þráast við og láta eins og gildandi stjórnarskrá sé eitthvert plagg af himnum ofan. Þetta er gamalt plagg. Það er að mörgu leyti úrelt. Þetta er í raun afurð konungsríkis og það ber þess merki, kjörbréfanefnd er annað slíkt dæmi sem ég ætla ekki út í við þetta tilefni, en það er af nógu að taka. Það er löngu orðið tímabært.

Eins og ég segi, mér þykir vænt um EES-samstarfið. Mér finnst að við eigum að halda því áfram. Mig langar til að greiða atkvæði með þessu máli, en á meðan þetta stendur út af þá er það erfitt í besta falli.