148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma því að í fyrsta lagi að þótt fram hafi komið í umræðunni að ekki sé gert ráð fyrir því að miðlægur mótaðili eða afleiðuviðskiptaskrá muni vera með starfsstöð eða hefja starfsemi hér á landi er tilkynningarskyldan engu að síður til staðar. Slíkar tilkynningar munu fara fram með rafrænum hætti í gegnum vefinn og munu þá mjög stórir aðilar, sem teygja sig yfir mögulega mörg lönd, vera í þeirri starfsemi.

Síðan er hitt sem hv. þingmaður kom inn á og varðar EES-réttinn. Þar finnst mér vera komið inn á gríðarlega stórt mál. Hv. þingmaður tengir það við stjórnarskrána o.s.frv. Það er margt sem mig langar að segja um það hér. Í fyrsta lagi tel ég að þetta tiltekna mál sé vel innan þeirra marka sem við höfum hingað til talið að gildi að stjórnskipunarrétti um framsal valdheimilda. Þar skiptir máli hversu umfangsmiklar valdheimildir verið er að framselja, og hér er verið að framselja þær til stofnana sem við eigum aðild að. Varðandi stjórnarskrána get ég tekið undir með hv. þingmanni að það getur verið mikill kostur í því fólginn og til þess fallið að auka skýrleika að festa í stjórnarskrá þær valdheimildir sem framselja má að stjórnskipunarréttinum eins og hann er.

En ég hef persónulega engan áhuga á því að auka heimildir til slíks. Ég tel að við höfum nokkuð skýrar reglur um það hvaða valdheimildir hægt er að framselja til stofnana sem við höfum og eigum aðild að. Það gæti verið ágætt að festa í stjórnarskrá slíkt framsalsákvæði, en það er engin ástæða, að mínum dómi, að útvíkka þær heimildir. Þar held ég að ég og hv. þingmaður séum mögulega ekki alveg sammála. Mér finnst hann ganga svolítið langt í því þegar hann segir að heimildirnar verði í raun og veru fyrst til staðar þegar þær verði festar í stjórnarskrá.