148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Upphaf fyrstu iðnbyltingarinnar markaði skil þar sem bilið milli ríkasta og fátækasta fólks heims jókst til muna. Þótt lífsgæði flestallra hafi batnað stórlega síðan þá hefur munurinn á eignum og tekjum ríkasta fólksins í heiminum og þess fátækasta farið vaxandi. Lægsta tekjutíund heims, sérlega í Kína og Indlandi, hefur vaxið hraðast allra í tekjum á undanförnum áratug og er það vel. Það eru samt eingöngu 200 kr. á dag sem eru meðallaun þessa fátækasta fólks jarðar.

Ísland er í alþjóðlegu samhengi stórkostlega ríkt land. Hvalrekahagkerfið okkar hefur verið okkur mjög gjöfult áratugum saman og margt sem bendir til þess að við verðum áfram rík þjóð þrátt fyrir að misskipting sé hér innan lands. En tvennt veldur mér sérstökum áhyggjum í dag.

Fyrst: Ef ætla má að sérhver iðnbylting auki frekar bilið milli ríkasta og fátækasta fólks jarðar og það fari nær alfarið eftir aðgengi að tækni og öðrum efnahagslegum gæðum iðnbyltingarinnar er mikil hætta á því að við drögumst mjög verulega aftur úr nema við tryggjum að við séum leiðandi í öllum iðnbyltingum sem eiga eftir að koma. Á þessu augnabliki krefst það áherslu á menntun og uppbyggingu innviða, fjárfestingar í líftækni, mekatrónik, sjálfvirknivæðingu, efnisfræði, gervigreind, geimrannsóknir o.fl.

Hins vegar ef tilkoma gufuaflsins ein og sér gat tugþúsundfaldað bilið milli ríkra og fátækra, hver eru þá áhrifin af tilvist almennrar gervigreindar og almennra tækniframfara nútímans? Hvað ætlum við sem erum hér að gera til að tryggja að mannkynið allt njóti góðs af framtíðinni en ekki bara við sem erum hér á hjara veraldar?