148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

62. mál
[17:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er þjóðþrifamál. Velferðarráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar í morgun og fjallaði um þann gríðarlega fjölda sem lendir á örorku vegna geðheilbrigðismála, en rúmlega 55% af fjölguninni sem orðið hefur á undanförnum árum er vegna geðrænna vandamála. Ef við dettum inn í þann hluta sem tölur eru um í framhaldsskólum, 18–19 ára hópurinn, þá eru 1,3% þar á örorku vegna ýmissa mála, þar á meðal geðrænna vandamála. Miðað við hlutfallið sem hefur bæst við nýlega ætti það að vera um helmingur af þeim sem eru nýir vegna geðrænna vandamála. Af því að þetta er mjög ungur aldurshópur þá væri það væntanlega rétt hlutfall af þessu 1,3%. Í samanburðarlöndum okkar er þessi tala helmingi lægri eða það hlutfall.

Það vantar dálítið í þær tölur sem við erum með hér og þá umræðu sem er í gangi að við erum með nánast helmingi hærra hlutfall öryrkja en í samanburðarlöndunum. Rúmur helmingur af þeim sem er að bætast núna við, og það hefur verið svo mikil viðbót að undanförnu, er vegna geðrænna vandamála. Við vitum ekki hvort sambærileg alda er í gangi í samanburðarlöndunum, en að þau lönd hafi önnur úrræði sem virka, sem grípa fólkið fyrr. Að fólk komist aftur til baka án þess að enda í örorku. Hér er vandamálið að þegar fólk lendir á annað borð í örorku þá eru mjög fáir sem vinna sig þaðan út aftur. Það er mjög alvarlegt mál.

Við fjölluðum aðeins um upphæðirnar. Grófur hugarreikningur hvað þær upphæðir varðar, miðað við tölurnar sem þarna var verið að setja upp, var á þá leið að aukinn kostnaður okkar — nú ætla ég að fara mjög varlega með mikla fyrirvara á þessu — vegna fjölgunar öryrkja, vegna geðrænna vandamála, væri um 5–10 milljarðar á ári. Ég set mikla fyrirvara við þessar tölur, en þetta var það sem við komumst næst á þessum fundi. Það væri mjög gott að fá betri tölur um þetta.

Að nota 5–10 milljarða á ári, þ.e. lægri upphæð, í forvarnir, önnur úrræði og endurhæfingu til að koma fólki aftur til baka — ávinningurinn af því er gríðarlegur. Því ekki nóg með að þú komist hjá því að nýta þessa 5–10 milljarða í örorkubætur, heldur nærðu fólki aftur inn á vinnumarkaðinn, í nám og í verðmætasköpun og í að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Áætlanir á hvern einstakling sem lendir ungur í örorku hlaupa á milljörðum, bara fyrir einn einstakling.

Þeim peningum sem nú er varið í örorkubætur, t.d. vegna geðrænna vandamála, væri svo miklu betur varið í heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og sálfræðiþjónustu í háskólum, eins og Viðreisn hefur lagt fram tillögu um og er alveg sjálfsagt líka. Peningnum er miklu betur varið þar, hann kemur miklu betur til baka til okkar allra.

Við ættum að íhuga það alvarlega að hefja þetta ferli sem fyrst, byrgja brunninn. Hann er því miður opinn núna. Það hafa allt of margir dottið ofan í hann. En við þurfum að byrgja brunninn. Tefjum það ekki mikið lengur. Það ætti öllum að vera ljóst þó að þeir skoði bara tölurnar sem liggja fyrir framan okkur á mjög yfirborðskenndan hátt.