148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um mannanöfn. Þetta er um margt áhugavert frumvarp. Ég held að það sé alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, við höfum kannski verið helst til íhaldssöm í því hvernig við höfum stillt þessum málum upp hingað til. Það er samt ýmislegt sem ég hef við frumvarpið að athuga. Ég tek undir það sem fram kom áðan, ég lít svo á að nafnahefð Íslendinga sé mjög mikilvægur hlutur og mikilvægur þáttur í menningararfleifð okkar og þess vegna sé ekki hægt að taka því af neinni léttúð að taka skref í þá átt að breyta henni.

Hvergi er tekið fram í frumvarpinu hvað eiginnafn er. Hvað má vera eiginnafn? Í rauninni er eina vísbendingin um hvernig taka eigi á því í frumvarpinu, eftir því sem ég fæ best séð, einhver reglugerðarheimild til ráðherra. Á þá ráðherra að hafa heimild til að setja þær reglur sem ráða því hvernig eiginnöfn eiga að vera? Á þá ráðherra að setja takmarkanir á hvað þau eiga að vera mörg, t.d. ef á einhverjum tímapunkti er erfitt að koma fyrir öllum nöfnunum í þjóðskrá eða hvað? Er ekki betra að taka hreinlega á þessu í frumvarpinu og vera ekki með einhverja reglugerðarheimild fyrir ráðherra?