148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. kærlega fyrir ræðuna sem mér fannst mjög góð og get tekið undir allt sem hún sagði. Þetta er margslungið allt saman. Ég greip af handahófi niður í úrskurð mannanafnanefndar þegar ég var að hlusta hér á ræður. Það er mjög margt merkilegt þar. Ég tek fram að ég nefni þetta af handahófi og er ekki í sjálfu sér að leggja mat á þau nöfn sem hér eru til umfjöllunar en það er t.d. eitt athyglisvert, nafninu Íslandssól var hafnað. Hvað er nú íslenskara en íslensk sól og Íslandssól? Rökstuðningurinn er sá að þetta fari í bága við hefðir og sé nafn þekktrar persónu í skáldsögu og þar sé það ekki notað sem eiginnafn heldur viðurnefni. Mannanafnanefnd fer nú að bera þetta saman við orð eins og Reykjavíkurmeistari, Íslandströll, Noregskonungur og fleiri slík og hún hafnar því að hægt sé að heita Íslandssól.

Svo er annað nafn hérna, þetta eru nokkrir úrskurðir frá sama degi, og þar er nafnið Tonni. Það er í lagi því að það fellur að íslenskri málhefð. Við eigum nöfn eins og Úlfur, Örn, Þröstur, Björn, okkur þykja þau öll mjög eðlileg. Ég reikna með, samkvæmt núgildandi reglum, að það sé ekkert athugavert við að skíra börnin Hana, Mink, Lax, Urriða. Eru þetta ónefni eða (Forseti hringir.) hvað? Þetta eru nú meiri hugleiðingar en spurningar til hv. þingmanns.