148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn byggir á fullyrðingunni um að íslenska ríkið eigi forkaupsrétt að hlutabréfunum í Arion banka. Ég vil halda því fram að þessi fullyrðing hafi reynst röng hjá hv. þingmanni sl. vor, enda var málið lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og kynnt þar og menn virtust almennt sammála um að forkaupsrétturinn væri ekki til staðar.

Varðandi það hvort íslenska ríkið eigi forkaupsrétt að bréfum sem kunna að skipta um hendur núna á þessu ári fyrir ætlaða skráningu bankans gilda um þann mögulega forkaupsrétt skýr ákvæði stöðugleikaskilyrðanna. Samkvæmt þeirri túlkun sem hefur verið framkvæmd af m.a. Bankasýslunni gildir sú undanþága frá forkaupsréttinum að séu menn að skrá bankann á markað gildi forkaupsréttur ríkisins ekki, í mjög einfölduðu máli.

Til að svara spurningunni get ég sagt: Hafi íslenska ríkið forkaupsrétt hefur engin ákvörðun verið tekin um að falla frá honum, hvorki fyrr né síðar, og er ekki til umræðu núna.

Varðandi 13% er í sjálfu sér alveg nákvæmlega það sama upp á teningnum þar. Það er enginn að tala um að selja beinni sölu 13% hlut ríkisins í bankanum. Það er margt sem segir að það væri langheppilegast ef ríkið ætlaði að fara í sölu á þeim eignarhlut að það væri gert með opnum hætti og í tengslum við skráningu bankans á markað þannig að markaðslögmálin myndu gilda um það. Hins vegar er það svo að þegar ríkið lagði til fjármagn til að fjármagna stofnun Arion banka á sínum tíma á árinu 2009 var veittur kaupréttur að hlut ríkisins, þessum 13%, án skilyrða á fyrirframákveðnu verði. Samkvæmt þeim kauprétti er það einhliða ákvörðun þeirra sem halda á kaupréttinum að leysa hlut ríkisins til sín. Gagnvart því þarf engan stuðning (Forseti hringir.) eða beiðni eða samþykki íslenska ríkisins.