148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

ráðherraábyrgð.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hv. þingmaður hræra í eina skál alls konar ólíkum álitamálum. Það er talað um Landsrétt og landsdóm og einhvern pólitískan vilja sem kann að vera til að virkja ákvæði laganna um landsdóm. Ég ætla fyrst að afgreiða það mál. Ég lýsi mikilli furðu á umræðum um að lögin um landsdóm séu ekki virk eða niður fallin fyrir sakir umræðu á hinum pólitíska vettvangi um að menn telji þörf á að endurskoða lögin. Að sjálfsögðu standa lögin eins og þau eru. Það er ekki langt síðan menn ákváðu að virkja þau. Ég var andmæltur því á þeim tíma. Ég hef talað fyrir því að þau lög þurfi að endurskoða. En lögin eru þarna. Ef hv. þingmaður telur ástæðu til að virkja lögin og kalla saman landsdóm og draga þar ráðherra til ábyrgðar á hann að tala fyrir því en ekki skáka í skjóli þess að það sé enginn almennur pólitískur vilji sem komi í veg fyrir að hann geti fengið þeim vilja sínum framgengt. Hafi menn þá sannfæringu að rétt sé að kalla saman landsdóm skulu menn tala fyrir því. Þetta er fínn vettvangur til þess. En það er alveg undarlegt að sjá sérfræðinga og aðra segja að lögunum hafi verið kippt úr sambandi út af orðum sem hafa fallið hér. Sumir hafa verið þeirrar skoðunar að þetta sé úrelt fyrirbæri og ég er þeirrar skoðunar. Það færi vel á því að lögin væru tekin til heildstæðrar endurskoðunar og fyrirbærið landsdómur fellt niður og við færðum þau mál í annan og almennari farveg, sem sagt það hvernig ráðherrar eru dregnir til ábyrgðar. En í millitíðinni gilda lögin að sjálfsögðu.

Varðandi það í hvers skjóli ráðherrar sitja í ríkisstjórn er það tiltölulega einfalt að í tilfelli Sjálfstæðisflokksins legg ég fram tillögu í þingflokknum sem fær blessun og ég fer með hana til samstarfsflokkanna. Ég held að þannig hafi það gengið fyrir sig hjá flestum flokkum fram til þessa. Ég styð alla ráðherra í ríkisstjórninni, (Forseti hringir.) þá sem sitja fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og alla hina.