148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:45]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Birni Leví Gunnarssyni, fyrir að vekja máls á skýrslunni og ræða þetta mikilvæga efni og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni og koma að henni. Það er nú einu sinni þannig að húsnæði er ein af grunnþörfum fólks og öryggi búsetu er afar mikilvægt fyrir velferð. Íbúðalánasjóður segir í skýrslu sinni að það þurfi 2.200 íbúðir á ári næstu 22 ár sem þýðir þá tæplega 50 þús. íbúðir. Ef við gerum ráð fyrir að íbúafjöldi í íbúð verði svipaður áfram og verið hefur hingað til, þ.e. 1,7–2 íbúar í hverri íbúð, má gera ráð fyrir að það séu í kringum 80–100 þús. manns sem ættu að búa þarna. Það stefnir þá í að fjölgun samkvæmt þessari spá verði svipuð og hún hefur verið undangengin 20 ár eða 1–1,3% á ári.

Miðað við hins vegar þær forsendur sem hv. þingmaður gaf sér er þetta kannski nær því að vera fjölgun um 120 þús. íbúa en látum það liggja á milli hluta. Hins vegar gerir Íbúðalánasjóður ráð fyrir að núna þurfi 17 þús. íbúðir til að mæta uppsöfnuðum vanda sem er þá húsnæði fyrir 25–30 þús. manns, eftir forsendum.

Íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu undanfarin nokkur ár hefur hins vegar verið 2,5–3%. Mér er mjög til efs að það haldi áfram en látum það liggja á milli hluta. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það er mikill uppsafnaður vandi og við þurfum að taka á honum með einhverjum hætti. Það er mikilvægt að við setjum aukið fjármagn til málaflokksins og það er mikilvægt að í þessu máli komi samvinna ríkis og sveitarfélaga til. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna eru þar mjög mikilvægar en vandinn sem við okkur blasir verður ekki leystur nema í samvinnu allra þeirra aðila sem að málinu koma.