148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[13:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, á þskj. 253. Tillagan er lögð fram á Alþingi nú í fyrsta sinn í samræmi við ákvæði 39. gr. raforkulaga sem kveður á um að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áðurnefnda stefnu.

Umrætt ákvæði kom inn í raforkulög með breytingalögum nr. 26/2015, með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Í nefndaráliti með þeirri breytingartillögu er fjallað um aðkomu Alþingis að mótun kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar er bent á að um sé að ræða mikilvæga áætlun á landsvísu og því eðlilegt að aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að gerð kerfisáætlunar verði tryggð með einhverjum hætti. Brýnt sé að Alþingi geti lagt fram ákveðnar meginreglur og viðmið sem taka ber mið af við gerð kerfisáætlunar á hverjum tíma.

Sú tillaga sem ég mæli hér fyrir byggir að hluta til á fyrri þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2015, nr. 11/144, um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Til samræmis við ákvæði raforkulaga hefur þessi þingsályktunartillaga þó talsvert víðtækara gildissvið og nær til almennra áhersluatriða við uppbyggingu á flutningskerfi raforku og hvernig standa skuli að slíkri uppbyggingu til lengri tíma.

Drög að tillögunni voru unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á fyrri hluta árs 2017 og voru sett í almennt opið umsagnarferli á heimasíðu ráðuneytisins sl. sumar. Í kjölfar þess hefur verið farið yfir innsendar umsagnir og tekið tillit til þeirra. Jafnframt hafa drögin verið uppfærð til samræmis við áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar kemur m.a. fram að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu og að treysta þurfi betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.

Í stjórnarsáttmálanum eru úrbætur á þessu sviði m.a. tengdar áætlunum um orkuskipti, uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og þrífösun rafmagns. Að sama skapi kemur fram í stjórnarsáttmálanum að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið og að skoðað verði að hve miklu leyti nýta megi jarðstrengi með hagkvæmum hætti.

Eru allar þessar áherslur úr stjórnarsáttmálanum endurspeglaðar og nánar útfærðar í þingsályktunartillögunni.

Hæstv. forseti. Tillagan er efnislega þrískipt og er meginmál hennar í þremur köflum.

Fyrsti hlutinn snýr að atriðum sem lúta með almennum hætti að flutningskerfi raforku og hvernig standa skuli að uppbyggingu þess til lengri tíma. Eru þar lögð fram áhersluatriði í 15 töluliðum sem Alþingi ályktar að leggja beri til grundvallar við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ýmis mikilvæg nýmæli er þar að finna og ég tel rétt að greina í stuttu máli frá þeim.

Í 1. tölulið er kveðið skýrt á um þjóðhagslegt mikilvægi flutningskerfis raforku og staðfest að það er hluti af grunninnviðum samfélagsins. Með sama hætti og gildir um aðra grunninnviði, eins og t.d. gildir um samgöngu- og fjarskiptainnviði, er flutningskerfið þannig ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnuþróunar og jákvæðrar byggðaþróunar.

Í 2. tölulið er vísað til þess sem kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar að flutningskerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. Jafnframt er með áhersluatriðinu vísað til þeirra þjóðhagslegu markmiða sem fram koma í 1. gr. raforkulaga. Mikilvægt er að flutningskerfi raforku geti mætt þeim markmiðum á hverjum tíma svo fullnægjandi sé. Víða er hér úrbóta þörf eins og dæmin sýna.

Í 3. og 4. tölulið er einnig vísað til þess sem fram kemur í sáttmála ríkisstjórnar í umfjöllun um flutningskerfi raforku og afhendingaröryggi. Eitt mikilvægasta og brýnasta úrlausnarefni sem við blasir á sviði orkumála er að treysta betur flutningskerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku um land allt. Á sama tíma er almenn samstaða um að standa beri vörð um þau verðmæti sem felast í óspilltum víðernum á hálendi Íslands og að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum eins og kostur er. Tæknilegar útfærslur til að ná markmiðum um bætt afhendingaröryggi og tengingar lykilsvæða þurfa ávallt að taka mið af þessu. Í því skyni er í áhersluatriði fjögur í þingsályktunartillögunni vísað til þess að skoðað verði að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi í þessar tengingar á milli landsvæða með hagkvæmum hætti. Að sama skapi er þar tilgreint að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið. Nánar er vikið að því í öðrum hluta þingsályktunartillögunnar og mun ég greina frá því hérna síðar.

Í stjórnarsáttmálanum er sem áður segir vikið að því að tengja þurfi betur saman lykilsvæði. Ég vil aðeins fá að koma inn á að það verkefni snýr m.a. að flutningsgetu á milli landsvæða. Með úrbótum á því sviði er flutningskerfið mun færara um að stýra raforkuflutningi með þjóðhagslega hagkvæmum hætti og sinna raforkunotendum á landsvísu án þess að til endurtekinna flutningstakmarkana eða skerðinga komi, eins og við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Að sama skapi er aukin flutningsgeta á milli landsvæða ein forsenda þess að flutningskerfið geti sinnt aukinni almennri raforkuþörf, m.a. vegna áforma um orkuskipti, og skapað skilyrði fyrir hagkvæma nýtingu umhverfisvænnar raforku. Má þannig nefna að núverandi flutningstakmarkanir skekkja samkeppnisstöðu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa gagnvart óumhverfisvænum orkugjöfum, t.d. í rekstri fiskimjölsverksmiðja.

Betri tengingar lykilsvæða og aukin flutningsgeta milli svæða varða einnig getu flutningskerfisins til að sinna hlutverki sínu ef til stórfelldra náttúruhamfara kemur. Eru þau mál í raun sérkapítuli sem kallar á sérstaka umræðu og við höfum kannski ekki rætt nægilega vel.

Það er mín skoðun að framkvæmdir í flutningskerfinu til að tengja betur lykilsvæði þurfi að vera í samræmi við þarfagreiningu og að í dag þurfi að setja þau landsvæði í forgang þar sem þörfin er brýnust. Má þar sérstaklega nefna Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi, auk þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir með orkumál á Vestfjörðum.

Til lengri tíma er æskilegt að sett verði markmið um ákveðið hlutfall flutningsgetu á milli landsvæða og tel ég eðlilegt að um þá þætti verði nánar fjallað í mótun þeirrar langtímaorkustefnu sem kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í 5. tölulið þingsályktunartillögunnar er áréttað að gæta skuli jafnvægis milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Er hér um lykilatriði að ræða sem er grundvöllur allrar stefnumótunar til lengri tíma á sviði orku- og auðlindamála, eins og kom m.a. fram í sérstakri umræðu á Alþingi fyrr í vikunni um gerð langtímaorkustefnu.

Í 6. tölulið er vísað til mikilvægis þess að skipulega og með gagnsæjum hætti sé staðið að áformum um uppbyggingu innan ramma kerfisáætlunar og jafnframt tryggt aðgengi hagsmunaaðila að þeirri vinnu frá fyrstu stigum. Þegar hafa verið stigin skref í þessa veru og mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut.

Í 7. tölulið er sérstaklega horft til þeirra svæða á Íslandi sem búa við skert afhendingaröryggi raforku. Dæmi um slík landsvæði eru Vestfirðir og Norðurland. Eitt af markmiðum raforkulaga er að efla atvinnulíf og byggð í landinu og til þess að unnt sé að ná því markmiði þarf flutningskerfi raforku að tryggja fullnægjandi afhendingaröryggi raforku á landsvísu. Í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku verður þannig að gæta að ákveðnu jafnræði og jöfnum tækifærum milli landsvæða þegar kemur að afhendingaröryggi.

Í 8. tölulið er horft til samspils flutnings- og dreifikerfis raforku við áform um aukin orkuskipti á Íslandi. Uppbygging flutningskerfisins verður að geta stutt við fyrirliggjandi áætlanir um orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að hraða þrífösun rafmagns, með varmadæluvæðingu á köldum svæðum, innviðum fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna.

Í 9. tölulið er lagt til að í þeim tilvikum þegar framkvæmd í flutningskerfinu tekur til fleiri en eins sveitarfélags skuli tryggja að ákvarðanir um einstaka jarðstrengskafla, þegar það á við, byggist á heildstæðu mati á þeim hluta flutningskerfisins þar sem lengd jarðstrengskafla er háð takmörkunum og innbyrðis háð. Er hér um mikilvægt atriði að ræða sem m.a. Skipulagsstofnun hefur bent á.

Áhersluatriði 10–15 í þingsályktunartillögunni eru tekin úr gildandi þingsályktun frá árinu 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Voru þau lögð þar fram sem almenn sjónarmið sem hafa ber að leiðarljósi við uppbyggingu á flutningskerfi raforku og vísast nánar til þess sem þar kemur fram.

Í öðrum hluta tillögunnar er lagt til að sérfróðir aðilar verði fengnir til að gera óháðar og sjálfstæðar rannsóknir á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína. Jafnframt fari fram óháð greining á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggi, hagkvæmni og byggðaþróun, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar. Lagt er til að skýrslur um þau efni verði lagðar fram á Alþingi fyrir 1. febrúar á næsta ári, þ.e. 2019.

Sem áður segir er tækniþróun ör á þessu sviði og það er mikilvægt að styðjast við nýjustu og bestu upplýsingar frá óháðum sérfræðingum við ákvarðanir um stefnumótun stjórnvalda. Það á sérstaklega við um álitamál er varðar jarðstrengi og loftlínur. Ýmsar skýrslur og rannsóknir hafa þegar verið unnar á undanförnum árum, með samanburði á loftlínum og jarðstrengjum, en deilt hefur verið um að hvaða leyti þær séu óháðar og sjálfstæðar. Þess vegna er mikilvægt að til slíkrar greiningarvinnu á vegum stjórnvalda verði fengnir sérfróðir aðilar sem eru að öllu leyti sjálfstæðir og óháðir. Slíkri vinnu verður þannig ætlað að leggja faglegan grundvöll undir frekari stefnumótun á þessu sviði á næstu árum.

Í þriðja hluta þingsályktunartillögunnar er síðan lagt til að þingsályktunin verði, í kjölfar áðurnefndra rannsókna og greininga, tekin til endurskoðunar á vorþingi 2019. Í endurskoðaðri tillögu verði nánar kveðið á um viðmið og meginreglur varðandi lagningu raflína til lengri tíma, m.a. með áherslu á að hve miklu leyti nýta skuli jarðstrengi með hagkvæmum hætti í flutningskerfinu. Þar til þessari endurskoðun er lokið skulu gilda þau viðmið og þær meginreglur varðandi lagningu raflína sem fram koma í þingsályktun nr. 11/144, frá árinu 2015, um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Hæstv. forseti. Ég hef hér rakið almenna efnisþætti þessarar tillögu til þingsályktunar. Hér er um stórt og viðamikið mál að ræða og því tel ég mikilvægt að tillagan fái greinargóða umfjöllun á Alþingi og í þingnefndum Alþingis. Flutningur raforku og örugg afhending raforku til heimila og atvinnulífs á landsvísu er sem áður segir nauðsynlegur þáttur í grunninnviðum samfélagsins og ekki þörf á að hafa mörg orð um það. Fyrir liggur að mikilvægt er að styrkja flutningskerfi raforku á næstu árum til að leysa vaxandi takmarkanir sem eru í flutningskerfinu og til að anna almennum vexti í raforkunotkun heimila og fyrirtækja.

Á sama tíma viljum við jafnframt ganga vel um náttúruna og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif sem óhjákvæmilega fylgja framkvæmdum í flutningskerfinu. Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku snýst því ávallt um ákveðið jafnvægi ákveðinna grunnþátta og skynsamlega nálgun. Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Með þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi er í 1. gr. laganna jafnt horft til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Mikilvægt er að við reynum að ná fram eins mikilli sátt og unnt er um þennan málaflokk og setjum í því skyni fram skýra stefnu stjórnvalda sem aðilar geta unnið eftir. Eftir því er kallað og Alþingi þarf að svara því með ábyrgum hætti.

Hafa ber í huga að hér, í þessari þingsályktunartillögu, er ekki bara um almenn orð á blaði að ræða, heldur ber við gerð kerfisáætlunar að fara eftir fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins, eins og hún birtist í þessari þingsályktunartillögu. Þingsályktunin sem slík hefur því ákveðna stöðu að lögum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og jafnframt tekin til skoðunar í umhverfis- og samgöngunefnd.