148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta mál fram. Ég held að það sé gott að við höfum þessa stefnu og ræðum hana. Í mars í fyrra átti ég orðastað við hæstv. ráðherra, sem þá gegndi sama embætti, og spurði út í liði stefnunnar sem nú er komin. Það eru margir mjög góðir punktar í tillögunni sem gott er að byggja á.

Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir það sem ég er sérstaklega ánægður með og koma svo aðeins inn á aðra hluti sem mér finnst að betur mættu fara, sem mér finnst að þurfi að skoða við afgreiðslu tillögunnar eða meðferð og svo almennar hugleiðingar um ýmislegt.

Ég ætla að tala dálítið um orkustefnu. Ég læt fólk vita um hvað ég ætla að tala um svo að það geti hlaupið úr salnum ef það hefur ekki áhuga. Ég hef oft talað um orkustefnu. Markmið mitt er að sagnfræðingar framtíðarinnar sem skrifa um þing þessara ára sjái að ég hafi nánast eingöngu talað um orkustefnu. Ég er að komast nokkuð áleiðis með að ná því markmiði mínu.

Í fyrstu punktunum í tillögunni, sem er haglega samansett og skipt upp fyrir okkur sem gerir þægilegt að fletta sig í gegnum hana, er margt sem er mjög gott og nauðsynlegt að sé hluti af stefnu stjórnvalda í uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég fagna sérstaklega 1. punktinum um að flutningskerfið sé skilgreint sem hluti af grunninnviðum samfélagsins, með sambærilegum hætti og fjarskiptainnviðir, og svo áfram að flutningskerfið stuðli að þeim þjóðhagslegu markmiðum sem fram koma í raforkulögum.

Ráðherra kom inn á það, sem var líka gert í andsvörum, að treysta flutningskerfið betur. Það er gríðarlega mikilvægt að tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um allt land. Síðan er talað um að skoða að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi, sem er gott. Svo er hvorki meira né minna en sjálfbær þróun í 5. punkti sem er ánægjulegt, að gæta skuli jafnvægis milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa við uppbygginguna.

Svo erum við með tengingu við aðrar stefnu að einhverju leyti, þótt það sé það sem ég sakna pínulítið í tillögunni. Í punkti 8 segir, með leyfi forseta:

„Tryggja skal að flutningskerfið mæti þörfum fyrir aukin orkuskipti í samgöngum og haftengdri starfsemi, m.a. að því er varðar innviði fyrir rafbíla, notkun raforku í höfnum og raforku til fiskimjölsbræðslna.“

Það er margt hér mjög gott. Það sem ég hefði viljað sjá almennt betur í tillögunni og í máli ráðherra um hana er orkustefnan sem fyrirhugað er að stjórnvöld, í samvinnu allra, fari í.

Ég ætla núna, með leyfi forseta, að vitna í stjórnarsáttmálann. Þar segir:

„Langtímaorkustefna verður sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.“

Síðan kemur það sem var aðeins rætt í andsvörum áðan:

„Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.“

Ég velti fyrir mér í hvaða röð er best að gera hlutina. Er best að setja núna stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem verður um leið ein af fjölmörgum samþykktum stefnum sem tekin verða inn í vinnuna varðandi orkustefnuna? Þær eru legio, við höfum komið inn margar hérna. Í stjórnarsáttmálanum er talað um áætlun um orkuskipti og það er komið inn á hana í tillögunni. Þar eru fleiri nefndar og ýmislegt annað.

Það er vinnan við orkustefnu sem ætti að koma að örlítið hreinna borði þar sem þetta ætti heima inni í því. Ég er ekki að heimta að hlutirnir verði á einn eða annan veginn. Ég velti upp í hvaða röð er best að gera þetta. Ég tel mikilvægt að þegar farið verður í vinnu við mótun langtímaorkustefnu, sem ég tel mikilvægt að verði gert sem fyrst, ekki síst í ljósi þess að eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af henni, taki hún með sem víðfeðmustum hætti á öllu því er viðkemur málefnum; orkuþörfinni, nýtingunni, öfluninni, flutningnum. Og svo okkar samþykktu markmiðum og skuldbindingum í umhverfismálum og loftslagsmálum.

Í tillögunni er komið inn á ákveðna hluti sem ég ætla að fara örlítið í. Það er gott að fara í rannsóknir og óháða greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis á raforku verði lagt í jörð. Hér kemur fram að þeim rannsóknum eigi að ljúka eigi síðar en 1. febrúar 2019. Síðan verði stefnan endurskoðuð á vorþingi 2019. Þetta er gott. Við erum að rannsaka það. Við þurfum samt að íhuga tímafaktorinn í þessu, að það náist allt en verði um leið ekki til þess að kasta þurfi til höndum við rannsóknina. Það þarf að halda vel á spöðum til að þetta náist og við getum tekið það til efnislegrar endurskoðunar á næsta vorþingi.

Hér er líka talað um samanburð. Í kafla 1.3 á síðu 9 er talað um samanburð á annars vegar jarðstrengjum og hins vegar loftlínum. Þar segir, með leyfi forseta: „Við samanburð á kostnaði skal miða við núvirtan stofnkostnað.“

Ég held að þetta sé ekki rétt leið. Ég held að nokkuð ljóst liggi fyrir að stofnkostnaður við jarðstrengi er alltaf miklum mun hærri en við loftlínur. Ef þú tekur hins vegar rekstrarkostnað með inn í og jafnvel líftíma mannvirkisins og horfir á það yfir lengri tíma færðu raunhæfari tölur til að bera saman kosti jarðstrengja annars vegar og loftlína hins vegar.

Í kaflanum eru taldir upp fimm tölusettir liðir um það hvort meta eigi hvort nota eigi jarðstrengi eða viðkomandi línuleið. Ég ætla ekki að lesa liðina upp, hv. þingmenn geta skoðað þá sjálfir. En mér fyndist gott ef þarna væri líka skerpt á því að að sjálfsögðu gildi lög um mat á umhverfisáhrifum og að þetta sé ekki tæmandi listi um það hvenær eigi að vega og meta og hvenær megi vera undanþága á þeirri meginreglu í meginflutningskerfi raforku að notast sé við loftlínur, að sjálfsögðu eigi lög um mat á umhverfisáhrifum að koma þar inn í.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra kom sérstaklega inn á það í máli sínu að þótt málinu sé vísað til atvinnuveganefndar sé það tekið til skoðunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Það er mjög mikilvægt að svo verði.

Stefnumótun til langs tíma er eitthvað sem við eigum að venja okkur meira við og taka alvarlegar en stundum hefur verið gert. Það hefur mjög oft tekist og jafnvel vel, en mér finnst þetta liður í þá átt. Ýmislegt annað í málinu má skoða líka. Talað er um annars vegar byggðalínu og hins vegar línu yfir hálendið og rætt um erfiðleika sem oft geta komið upp, dómsmál jafnvel þegar kemur að byggðalínu. Ég held að við gerðum vel í því að skoða hvernig slíkum málum er fyrir komið í öðrum löndum. Ég veit t.d. að í Danmörku er það einfaldlega þannig að samningar eru á milli flutningsfyrirtækisins og bændasamtaka landsins og jarðeigenda þar sem er einfaldlega verðskrá um not á jörð og svo er gerðardómur ef menn eru ekki sáttir við það. Ég held að heildstæður rammi utan um þetta væri góður (Forseti hringir.) og við ættum að skoða það varðandi tillöguna og absalút, afsakið slettuna, þegar kemur að langtímaorkustefnunni.