148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa mikilvægu þingsályktunartillögu. Nú veit ég að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson þekkir málið vel úr sínu kjördæmi og þá stöðu sem við búum við víða á Norðurlandi þar sem afhendingaröryggið er vægast sagt mjög slæmt.

Ég hjó því eftir því í ræðu hans og andsvörum fyrr í dag að hv. þingmaður ræddi næstu skref. Ég tek undir með hv. þingmanni að um mjög mikilvæga stefnu er að ræða og ég lýsi mig algerlega samþykka því sem kemur fram. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála því að einhverjar aðgerðir þurfi að fylgja í kjölfarið. Þá er ég ekki að meina sjálfar lagnirnar, hvort sem er í lofti eða jörðu, heldur að það kunni að vera ástæða fyrir okkur til að horfa á aðrar lagabreytingar. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi landsskipulag áður, hvernig málum er háttað varðandi kæruferli og annað þess háttar þegar kemur að lagningu línanna. Mér heyrist við flest sammála um það sem tekið höfum til máls í dag að það er eitthvað mjög óeðlilegt við að Landsnet hafi ekki náð að leggja línur svo árum skiptir.