148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst um sjálfbærnina. Við tölum gjarnan um að orkuvinnsla og þar með orkudreifing þurfi að vera á sem sjálfbærustu nótum. Við getum ekki sagt að hún sé sjálfbær og ástæðan er sú að þegar kemur að náttúrulega þættinum — sjálfbærni hefur þrjár undirstöður — þá þýðir nánast öll orkuframleiðsla rask, hvort það eru stíflur eða vegir eða línur eða byggingar o.s.frv. Það er engin formúla fyrir því heldur er það eingöngu samfélagslega sáttin um hvað sé ásættanlegt í því sem gildir, hvort það er þingið eða sveitarfélögin eða almenningur. Að því höfum við unnið núna í einhverja áratugi og við erum ekki að mörgu leyti komin lengra en við erum komin. Þó hafa orðið gríðarlegar framfarir. Það get ég sagt um þetta valta jafnvægi.

Hvað varð leiðina til einföldunar stjórnsýslu hef ég því miður, ég verð að hryggja hv. þingmann, ekki hugað mikið að því. Ég hef verið meira í sjálfbærnihugleiðingunum og hef ekki hér og nú tilbúnar hugmyndir. Ég er alveg sammála að það verður með einhverju móti að vinna slíka einföldun en aðkoma almennings, aðkoma sveitarfélaga, aðkoma þingsins má ekki rýrna við þetta. Við erum aðeins að gera kerfið skilvirkara. Ef ég leggst yfir það í einhverja daga getur vel verið að ég geti komið með betri upplýsingar, en þarna verð ég að játa að hv. þingmaður tekur mig í bólinu.