148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rafmögnuð stemning hér í þingsal þegar við ræðum um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Það er eiginlega svo að hv. þm. Óli Björn Kárason fór yfir hluta af þeim spurningum sem ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson út í. Mig langar líka að taka undir þakkir um ræðu hv. þingmanns. Það er ánægjulegt að geta setið hér á þingi með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni og heyrt hann tala af þessari þekkingu um málaflokkinn og full ástæða til þess að við nýtum þá fagþekkingu sem í honum býr í þessari vinnu allri saman.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir það sem hann nefndi í ræðu sinni um þá ákvörðun sem norska Stórþingið tók. Ég hef heyrt mikið talað um þá aðferðafræði sem Norðmenn hafa beitt og þeir séu kannski nokkrum skrefum á undan okkur og við gætum lært ýmislegt af þeim án þess að ég þekki það þó til hlítar. Það væri ánægjulegt ef hv. þingmaður gæti farið aðeins yfir það með okkur.

Svo langar mig að hluta til að taka undir það sem kom fram hér áðan um vindmyllur. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því sem fram kom í máli hv. þingmanns um heildarvistspor vindmyllunnar frá vöggu til grafar. En ég tel mikilvægt að við höfum skýra stefnu um það hvar vindmyllur megi rísa á Íslandi. Ég hef sjálf upplifað það í mínu sveitarfélagi að þar hafa komið aðilar sem segjast vera með fjársterka aðila á bak við sig og vilja gjarnan fara að reisa vindmyllugarða. Það er alveg ljóst að við þurfum að hafa einhvern ramma utan um það með hvaða hætti slíkir garðar yrðu byggðir upp og hvar, hvernig þeir myndu tengjast inn á netið og áhrif þeirra.