148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:08]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum og háskólum er mikilvæg. Ég fagna þess vegna þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir um sálfræðiþjónustu opinberum háskólum og eins þeirri tillögu sem mælt var fyrir í gær um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.

Ég get í raun tekið undir allt sem kom fram í ræðu framsögumanns og það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni. Ég hef hins vegar efasemdir um að sálfræðiþjónusta eigi að vera á ábyrgð menntakerfisins og velti fyrir mér hvort ályktunin ætti ekki frekar að vera til heilbrigðisráðherra, sem hefði samstarf við menntamálaráðherra um úrvinnsluna. Ég vil þess vegna spyrja þingmanninn hvort hann telji að sálfræðiþjónusta eigi að vera hluti af menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu almennt. Eins vil ég spyrja flutningsmann hvort hann telji að það tryggi meiri samfellu í þjónustu við ungmenni í geðheilbrigðismálum að þjónustan sé veitt af heilbrigðiskerfinu frekar en af skólakerfinu þar sem hún væri hugsanlega bundin við skólaárið eða tengd tilteknum skólum. Í þriðja lagi spyr ég hvort flutningsmaður væri tilbúinn til að beina þeirri umræðu með tillögunni til nefndar að ályktunin færi til heilbrigðisráðherra frekar en menntamálaráðherra.