148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

málefni forstjóra Barnaverndarstofu.

[15:21]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að taka þetta upp. Eins og fram kom í frétt á vefsíðu velferðarráðuneytisins á föstudaginn átti sá sem hér stendur fund með formönnum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu, þremur stærstu nefndunum, í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi, á föstudaginn þar sem þessi niðurstaða var kynnt og var síðan fylgt eftir með bréfi í framhaldinu.

Það sem skiptir líka máli og er gríðarlega mikilvægt er að velferðarnefndin setji sig vel inn í þetta mál. Þess vegna hafði ég samband við formann velferðarnefndar nú um helgina og óskaði sérstaklega eftir því að velferðarnefnd setti sig inn í þetta mál. Af hverju er það mikilvægt? Jú, vegna þess að niðurstaðan sem var kynnt á föstudaginn og verður væntanlega kynnt opinberlega í dag er sú að menn þurfi að ráðast í talsvert miklar breytingar á barnaverndarmálunum almennt til að endurheimta traust. Þær breytingar verða að vinnast í sátt á milli allra aðila. Það var gríðarleg ánægja með þessa niðurstöðu sem verður rökstudd frekar, m.a. meðal forystumanna barnaverndarnefndanna. Ég veit ekki annað en að það sé eins með Barnaverndarstofu, að menn séu ásáttir um að það sé mikilvægt að setja sig inn í þau álitamál sem snúa að barnaverndarstarfi. Vonandi getum við farið dýpra ofan í það á fundi velferðarnefndar á miðvikudaginn sem nú þegar er búið að boða.

Ég vil líka segja að þessi málaflokkur er mjög viðkvæmur í alla staði. Ég vonast til þess að velferðarnefnd setji sig vel inn í þetta mál rétt eins og ráðherrann hefur gert vegna þess að við verðum að skilja hvaða breytingar þarf að gera á starfinu í heild sinni, m.a. þegar kemur að eftirliti, ráðgjöf, úrræðum og fleiri þáttum. Það er í raun niðurstaða ráðuneytisins gagnvart þessu máli, að það þurfi að ráðast (Forseti hringir.) í aðgerðir í barnaverndarmálum.

Ég ætla að koma aðeins betur inn á þetta í seinna andsvari hér á eftir.