148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína að það veki furðu hv. þingmanns að ég viti ekki að fólk sem er ekki með leyfi til að starfa að einhverjum iðnaði skili líklega ekki skatti og skrá sig ekki neins staðar hjá ríkinu. Mér finnst það frekar augljóst. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki bara sammála. Ef ekki finnst mér það stórfurðulegt og ég hlakka til að hlýða á ræðu hans, sérstaklega ef hann fer inn á það efni. En það liggur í hlutarins eðli að ólögleg starfsemi, þegar hún er ólögleg, hvers vegna svo sem hún er ólögleg, hlýtur að vera ógagnsæ. Það hljóta að vera stunduð skattsvik þar, (Gripið fram í.) það hlýtur að vera skortur á tryggingum og þess háttar. Þess vegna þurfum við regluverk. En til þess að regluverk sé til staðar þarf starfsemin augljóslega að vera lögleg. Það er heili punkturinn.

Ef við breytum þessu kerfi ekki neitt þá breytist þetta fyrirkomulag ekki neitt. Það er punkturinn á bak við það sem ég var að segja. En ég hlakka til að hlýða á ræðu hv. þingmanns hér á eftir. Vonandi fer hann betur inn á hvað í ósköpunum hann er að tala um.

Hv. þingmaður spyr hvernig hægt sé að athuga hversu margir stundi þetta skutl eða hvernig væri hægt, ef ég skil rétt, að framfylgja lögunum. Ég veit bara um eina leið. Það er með því að taka upp einhvers konar lögregluríki. Ég er ekki til í það. Ég held að hv. þingmaður sé það ekki heldur. Það er það sem ég er að benda á. Tæknin er þess eðlis að það er ekki hægt að stöðva þetta nema með ofboðslega miklu lögregluafli þar sem eingöngu væri pælt í þessu vandamáli á hverjum tíma. Þetta er alveg eins og þegar internetið kom, þá gat fólk deilt tónlist hvert með öðru. Eina leiðin til að stöðva það var og er með því að hlera tengingar, loka síðum eða hefta frelsi fólks eða koma á einhvers konar lögregluríki sem engin eftirspurn er eftir. Það er heili punkturinn. Þetta er ekki hægt. Við verðum að breyta þessu kerfi. Það er punkturinn á bak við það sem ég er að segja.

Ég býð ekki fram neinar lausnir á grundvelli núverandi kerfis. Ég held að það geti hugsanlega útskýrt misskilning hv. þingmanns. Hv. þingmaður segir: Ef þjónustan er dýrari en önnur eru gæðin ekki á sama plani. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því en í öðru lagi myndi ég segja að ég ætla bara að taka ákvarðanir um gæði þjónustu fyrir sjálfan mig, ekki fyrir neina aðra. Mér finnst þjónusta (Forseti hringir.) leigubílstjóra á Íslandi almennt mjög góð. Oft þarf ég ekki eins mikla þjónustu og ég fæ. Oft þarf ég ekki svona fína bíla. Ég segi það bara eins og er.