148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að krefja hv. þingmann um svar, heldur ætla ég að flytja honum nokkra ábendingu í ljósi þess að hann sagði hér að þingmenn sem töluðu áðan væru núna einhvern veginn að fara frá þessu máli vegna þess að hér væru leigubílstjórar uppi á pöllunum. Það er sannarlega þvættingur en hins vegar í miklu samræmi við orðræðu hv. þingmanns almennt.

Ég ætla að lesa úr ræðu minni sem ég flutti í sérstökum umræðum um sama efni 19. febrúar síðastliðinn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ég hlakka til að sjá hvað kemur frá þeim starfshópi sem hér var nefndur. Það er rétt sem var nefnt áðan, þetta er viðkvæmt mál. Það er svo sem við því að búast þegar við ræðum hérna lifibrauð fjölda einstaklinga, eðlilega er það fólki hjartans mál þegar gjörvallt lifibrauð þess er háð regluverki sem er að úreldast og mun úreldast meira. Við eigum líka að reyna að finna leiðir til að mýkja lendinguna fyrir þá hópa sem stóla á hefðbundna tækni og regluverkið sem hefur orðið til í ljósi þeirrar tækni.“

Þetta er sum sé það sem ég sagði sjálfur í þessari pontu þegar enginn var á pöllunum mér að vitandi. Síðan voru lokaorðin eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég ítreka að lokum að það er mikilvægt að við sýnum þessum hópi skilning og reynum að gera regluverk sem hentar hans hagsmunum í samhengi við nútímatækni.“

Ég frábið mér þess vegna dylgjur hv. þingmanns um að hér sé einhver vinsældakeppni eða ræðumenn að flýja málið. Þetta er bara í samræmi við það sem ég hef alltaf sagt um þennan málaflokk og mér að vitandi í mínum flokki. Ég kann ekki við að hv. þingmaður reyni að slá sjálfan til riddara hér og ætli að vera raunsæi maðurinn sem komi auga á það þegar hinir þykjast vera í einhverri vinsældakeppni. Þetta er bara heiðarleg skoðun. Mér finnst svolítið merkilegt að hv. þingmanni detti ekki í hug að það gæti verið tilfellið.