148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að leigubílstjórar væru tilbúnir til þess að skoða þetta. Þeir eru tilbúnir í breytingar. Ég hef heimildir fyrir því að þeir séu tilbúnir til þess að fallast á að fjölgun verði í þessari grein. Eigum við þá ekki bara að fagna því?

Það er alveg ljóst, og ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja það, að í núverandi umhverfi þarf leigubílstjóri að bíða í tvo, þrjá klukkutíma eftir að fá t.d. farþega við Leifsstöð. Ef fjölgað verður um 100% í greininni hlýtur sá biðtími að lengjast enn þá meira og tekjurnar minnka. Við höfum fjöldatakmarkanir í t.d. tannlæknanámi og einnig í sjávarútvegi. Það komast ekkert allir þar inn. Þetta er ekki eina stéttin sem reynt er að hafa ákveðið kerfi á hversu margir eru í stéttinni vegna þess að fólk vill lifa af þessu. Það er ósköp einfalt. Um 600 manns hafa beina (Forseti hringir.) atvinnu af þessu, fjölskyldur. Með þessari tillögu er verið að vega að lífsafkomu þeirra. Það er bara ósköp einfalt.