148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hv. forseti. Ég ætla að vera stuttorður. Stundum fæ ég á mig frjálshyggjustimpil og jafnvel að ég sé öfgafrjálshyggjumaður. En mér finnst eins og menn tali svolítið út og suður í þessu máli eða kannski frekar ekki um sama hlutinn.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, sem er alla jafna ekki með sömu hugmyndafræði og ég. Þá hugsaði ég með mér að við værum bara talsvert sammála. Ég hlustaði síðan á Þorstein Víglundsson, sem er alla jafna nær mér í skoðunum, og hugsaði: Ég er alveg sammála honum. En það er kannski af því að menn voru svolítið að tala um sitt hvorn hlutinn.

Ég get alveg tekið undir að auka megi frelsið, þ.e. ef menn gera sömu kröfurnar til allra. Kröfurnar geta snúið að hæfni manna, prófi, þeir geta sótt námskeið í skyndihjálp og o.s.frv. Það getur snúið að því að allir sitji við sama borð varðandi tryggingar, bíla og að menn þurfi að hafa einhverja stöð til að gera út af. Vandamálið er, vil ég segja við hv. þm. Þorstein Víglundsson, að þegar greinargerðin með tillögunni er lesin fara menn allt aðra leið. Menn eru í raun og veru að slaka á kröfunum. Ég er ekki viss um að ég sé sammála því að þó að ég sé frjálshyggjumaður alla jafna vil ég gera kröfur til þeirra sem selja þjónustu til einhvers neytanda. Að þeir uppfylli ströng skilyrði. Það á líka við um lögmenn, af því að minnst var á þá hér áðan, og fleiri stéttir.

Þó að þingsályktunartillagan sé orðuð með þessum hætti er hugsunin á bak við málið að slaka á kröfunum. Ég er sennilega einn af fáum þingmönnum sem hafa mikil tengsl við leigubíla og leigubílstjóra. Ég er alinn upp af einum. Ég var 12 ára gamall þegar ég byrjaði að afgreiða bensín niðri á BSR-porti og ég keyrði leigubíl á háskólaárum mínum. Þetta er mjög sérstök stétt og sumir mundu segja að það ætti að vernda hana og friða. [Hlátur í þingsal.] Við megum ekki eyðileggja það með svona þingsályktunartillögum. Þessi stétt er engri lík. Það er kannski einn angi af þessu að koma með einhverja friðunartillögu sem gæti þá leyst þennan ágreining.

Það sem mér finnst samt sérstakast, af því að við erum að tala um frjálshyggju o.s.frv., er að þeir sem berja sér á brjóst fyrir fjálslyndi, sem eru nú aðallega Viðreisnarmenn í þessu máli, gátu ekki einu sinni verið með á því máli eða samþykkt að aðrir en ríkisstarfsmenn afgreiddu áfengi. Það er nú allt frjálslyndið í þessum mönnum, flestum þeirra.

Menn velja frjálslyndi eftir hentugleika og þetta sama frjálslynda fólk ætlaði að skylda alla atvinnurekendur til að gefa út einhverja jafnlaunavottun, eins dýrt og það er fyrir neytendur og handónýtt kerfi, sem ég samþykkti þó með óbragð í munninum, eins og sagt er. Nei, þetta er mjög valkvætt frjálslyndi. Ég tek eiginlega ekkert mark á þessu frjálslyndi öllu saman. Á meðan menn geta ekki leyft mér að kaupa áfengi af einkaaðila er enginn frjálslyndur. Það er mín skoðun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) En ég segi eins og er að ég tel mjög mikilvægt að allir þeir sem veita þjónustu, ég tala nú ekki um farþegaflutninga af hverju tagi sem þeir eru þar sem líf fólks er oft undir, gleymum því ekki — það skiptir engu máli þó að það sé með ónýtan lögmann [Hlátur í þingsal.] — þegar líf og heilsa er undir skiptir það engu máli. Enda eru allir Íslendingar mjög miklir lögfræðingar og ráðleggja hver öðrum í því. Það er t.d. engin lögverndun á lögfræðingi þannig að allir geta kallað sig það.

Það skiptir máli að það séu alvörumenn í leiguakstri og þegar menn sem hafa verið lengi í leiguakstri, eins og þeir eru, eins frábærir og þeir eru, eins sérstakir og þeir eru, þá megum við ekki eyðileggja það.