148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:31]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég var kannski frekar að vonast eftir því að fá andsvar úr hinni áttinni, satt best að segja, og fá svar við þeirri spurningu minni hvort fólk vilji setja fjöldatakmarkanir á aðra verslun og þjónustu.

Hv. þingmaður spyr af hverju við höfum ekki verið með á þessu máli. Það er einfaldlega svo að minn flokkur hóf vinnu við þetta í ráðuneytinu á síðasta kjörtímabili til að ná víðtækri sátt og kanna allar hliðar málsins til breytinga. Ég studdi þá vinnu og hef hvatt fólk í mínum flokki áfram í þessu. Sú vinna hefur gengið vel og hópurinn á að skila af sér áfangaskýrslu mjög fljótlega, að mér skilst. Það er af þeirri einföldu ástæðu að ég tel skynsamlegt að reyna að leita leiða til að búa til löggjöf sem flestir geta sætt sig við með frelsi að leiðarljósi og afnema fjöldatakmarkanir í leiðinni. Ég býst við að fá góða niðurstöður úr þessum hópi, en ef ekki þá er meira en sjálfsagt að styðja þessa þingsályktunartillögu.