148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það er með ólíkindum að hafa staðið hér í ræðustól Alþingis í gær og verið að tala um skömm og ábyrgð þeirra ríkja sem bera ábyrgð á stríðsástandinu og hörmungunum í Sýrlandi og Jemen og hvetja okkur þingheim og íslensk stjórnvöld til að tala fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna á alþjóðavettvangi, og ekki bara tala fyrir þeim heldur beita sér fyrir þeim, og horfa svo á þáttinn Kveik á RÚV um kvöldið þar sem fram komu upplýsingar um að íslensk stjórnvöld hafi heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu þaðan sem þau gátu borist til Jemens og Sýrlands.

Íslensk lög og alþjóðasáttmálar, okkur til upprifjunar, banna hins vegar að vopn séu flutt til þessara svæða sem um ræðir. Málið er grafalvarlegt og stangast fyllilega á við þau gildi sem bæði við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum haft í okkar stefnu frá upphafi og stangast líka harkalega á við þá utanríkisstefnu sem Ísland hefur haldið á lofti og á að halda á lofti sem er friðarstefna, virðing fyrir mannréttindum og jöfnuði.

Nei, í þess stað hefur íslenskt flugfélag flutt vopn til Sádi-Arabíu þaðan sem mjög miklar líkur eru á að þau hafi borist til Jemens og Sýrlands. Jemen og Sýrlandi er lýst sem sláturhúsum heims af fráfarandi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna. Það verður að velta við hverjum steini hér, gefa skýr skilaboð um að Ísland leyfi engar undanþágur frá alþjóðlegum samkomulögum sem við höfum undirgengist eða vopnaflutningum sem bitna á sýrlenskum börnum og konum og í Jemen sem eru helstu fórnarlömb þessara stríðsátaka.