148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Ég veit ekki hvort mér ói við andrúmsloftinu eins og hv. þm. Brynjari Níelssyni. En ég kem hér upp til að taka undir það að við þurfum að sýna virðingu gagnvart þinginu og störfunum hérna. Ég er alveg hjartanlega sammála því að það er ekki neinn bragur á því að mál komi fram á síðustu stundu.

Ég var í þessum ræðustól í síðustu viku til þess að ræða þessi mál almennt undir þessum lið. Þá sagði ég að það væri ekki sjálfgefið að nefndir afgreiddu stór mál á hraðferð á síðustu metrunum. Ég segi það hér og nú: Þeir ráðherrar sem ætla að koma málum í gegn þurfa að fara að koma fram með þau. En við viljum heldur ekkert fúsk hérna, eins og var nefnt var í þessari umræðu af hálfu þingmanns stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Er ekki betra að þau stóru, miklu mál sem eru á leiðinni hingað inn séu vel unnin og komi þannig fram? Ég held að það sé nú það sem við erum öll að kalla eftir.