148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið ágætt að menn gæfu sér tíma til þess að fara aðeins yfir þá beiðni um skýrslu sem var hér á dagskrá fyrir nokkru síðan. Gott og vel, nú er hún komin fram í eitthvað breyttri mynd. Ég ætla samt sem áður að nota þetta tækifæri til að koma með almenna athugasemd um skýrslubeiðnir eins og þá sem hér er undir. Ég ætla ekki að leggjast gegn því að beiðnin nái fram að ganga. Ég ætla að koma því að að mér finnst býsna langt gengið að þegar þingið hefur látið vinna fyrir sig skýrslu sem út kemur í níu bindum sé því síðan beint til framkvæmdarvaldsins að veiða upp úr skýrslunni allar ábendingar eins og verið er að biðja um hér.

Þingið fær skýrsluna til sín. Þingið veit um þær ábendingar sem eru í skýrslunni en felur í þessu tilviki framkvæmdarvaldinu að flokka allar ábendingarnar og gera grein fyrir því hvað hefur verið gert með þær. Þetta er varla (Forseti hringir.) nægjanlega afmörkuð skýrslubeiðni til að sé mark á henni takandi, en væntanlega munu menn gera eins gott úr því og hægt er.