148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að við sjáum þetta bara með ólíkum hætti. Í fyrsta lagi koma menn hér upp og segja það hneyksli að framkvæmdarvaldið hafi ekki flokkað þessar ábendingar og búið til skýrslu um þær. Staðan er sú að 28. september 2010 var samþykkt á Alþingi að nefnd á vegum Alþingis myndi hafa þetta eftirlit. Það var samþykkt hér fyrir tæpum átta árum.

Í öðru lagi verð ég að koma fram með þá almennu athugasemd varðandi skýrslubeiðnir að mér þykir varla við hæfi að menn leggi fram skýrslubeiðni þar sem framkvæmdarvaldinu er falið að taka skýrslur sem Alþingi hefur látið taka saman og spyrja framkvæmdarvaldið: Hverjar eru ábendingarnar í skýrslunni?

Það stendur í þessari skýrslubeiðni að í skýrslunni verði samantekt á ábendingum þeim til stjórnsýslunnar sem settar eru fram í skýrslunum og fjallað verði m.a. um hverjar þær ábendingar eru. Þetta er ein leið til að fara í svona skýrslubeiðni. Önnur væri að segja: Í þessari skýrslu sem kom út í níu bindum var farið fram á að menn breyttu þessari löggjöf eða gripu til ráðstafana út af þessari athugasemd. Hvað hefur framkvæmdarvaldið gert í því máli? (Forseti hringir.)

Svoleiðis skýrslubeiðni skil ég en að framkvæmdarvaldinu sé falið að flokka og segja hverjar ábendingarnar eru — mér þykir menn leggjast hér býsna lágt fyrir framkvæmdarvaldinu.