148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég þakka fyrir virkilega áhugaverða umræðu um þessa skýrslubeiðni. Ég hef verið á þingi í tíu ár og þeir sem hafa verið hér í nokkur ár vita ósköp vel að það er mjög mikið búið að vinna eftir ábendingum skýrslu rannsóknarnefndarinnar þannig að það er algjör óþarfi fyrir hv. þingmenn að efast eitthvað um það.

Hér liggur einfaldlega þessi beiðni fyrir og af því að þessi liður heitir um atkvæðagreiðsluna ætla ég að upplýsa það að ég ætla að styðja þessa beiðni sem er beint til mín sem fulltrúa framkvæmdarvaldsins. Ég er hins vegar persónulega þeirrar skoðunar, og það er bara umræða sem ég held að við eigum að eiga á öðrum vettvangi, að þingnefndir geti auðvitað tekið frumkvæði, ákveðið að taka saman skýrslur, sýnt ákveðið frumkvæði, algjörlega óháð framkvæmdarvaldinu.

Ég held að það væri áhugavert fyrir forsætisnefnd þingsins og þingflokksformenn að ræða hvernig við getum virkjað þingnefndirnar miklu meira til að gefa sjálfstæðar skýrslur eins og er í öllum þingum í kringum okkur og snýr að þeirri eflingu Alþingis sem ég hef talað mikið fyrir, en ég vil bara segja að ég held ekki að það sé mikil ástæða til að ræða þessa skýrslubeiðni frekar í þaula. Ég taldi satt að segja að þessari umræðu væri lokið á vettvangi þingflokksformanna og ég legg til (Forseti hringir.) að við lengjum umræðuna ekki frekar, heldur göngum bara til atkvæða um beiðnina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SJS): Það mun gerast að lokum.) Já, að lokum. [Hlátur í þingsal.]