148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú svolítill íhaldsmaður að upplagi og hef verið mikill stuðningsmaður alls sem gamalt er og ég vil ekki raska hefð mikið. Það er samt sumt sem truflar mig aðeins við málflutning hv. þingmanns, kannski aðallega það sem snýr að trúfrelsi og trúarhefð.

Ég velti fyrir mér: Er einhver munur á því hvað hefðin er löng? Ef ég stofna eitthvert trúfélag núna og gengi svolítið á skrokk á börnunum mínum eða einhverjum í nafni trúarinnar, kæmist ég ekki upp með það vegna þess að ég væri nýbúinn að stofna trúarbrögðin? Eða ef þau væru mjög gömul væri það þá í lagi? Er munur á því hvort blóðbaðið er mikið í kringum þetta eða lítið? Hvað er tekið mikið af einhverjum? Er munur að taka forhúðina eða eina tána? Hvar liggja mörkin? Eru einhver mörk í þessu? Það er það sem ég velti fyrir mér.

Ég hef líka velt fyrir mér: Skiptir það einhverju máli í þessari umræðu núna, af því að ég heyrði þingmanninn tala um að refsingin væri sex ár, væri þingmaðurinn rólegri ef hún væri bara eitt ár, eins og minni háttar líkamsmeiðingar væru alla jafna í hegningarlögunum?

Telur þingmaðurinn yfir höfuð, eins og hegningarlögin eru í dag, að það sé heimilt? Hefur þingmaðurinn velt því fyrir sér? Alla jafna er svona ekki heimilt, (Forseti hringir.) hvorki inngrip í kynfæri né annað.