148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka nafna mínum fyrir svarið. En það sem ég meinti að ef við værum fæddir inn í viðkomandi trúarbrögð, þar sem umskurður færi fram, þá væri hann gerður þegar við værum sjö daga gamlir án þess að við værum spurðir og fengjum nokkru um það að ráða. Ég get ekki á neinn hátt séð að þessi athöfn tengist trúarbrögðum. Hún tengist bara ákvörðunum einhverra manna. Það er búið að taka ákvörðun um ofbeldi gegn litlum börnum og tengja það við einhver trúarbrögð. Ég get ekki skilið að barn sem er fætt sjö dögum áður í heiminn hafi ekki þann fullkomna rétt að ekkert sé verið að eiga við það. Í flestum trúarbrögðum er talað um að við séum sköpuð í mynd guðs. En þá erum við að grípa inn í og segja að guð hafi ekki skapað okkur fullkomlega heldur séu það mennirnir sem eigi að fullkomna okkur.