148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að leggja fram frumvarp um bann við umskurði drengja. Ég er stolt af því að vera ein af átta þingmönnum sem eru meðflutningsmenn á þessu frumvarpi. Hér hefur ýmislegt komið fram, ég þakka það hjartanlega. Það er alltaf gott að heyra mörg sjónarmið.

Mig langar nú bara að vísa í staðreyndir, það að við erum lítil eyja norður í ballarhafi, við sem eigum 100 ára fullveldisafmæli núna í sumar. Við urðum lýðveldi 1944. Við höfum byggt upp okkar eigið regluverk. Við erum fá, við erum 340 þúsund manna þjóð. Við höfum undirgengist ýmsa alþjóðlega skilmála og sáttmála, þar á meðal mannréttindasáttmála Evrópu ásamt svo mörgum öðrum sem ég ætla ekki að tíunda hér.

Við erum stolt af því að eiga stjórnarskrá, okkar eigin stjórnarskrá. Nú er það á döfinni að breyta henni og hefur verið ákall um það að gera hana þannig úr garði að allir geti skilið, en stjórnarskráin eru grundvallarlög, öll önnur lög lúta í lægra haldi fyrir stjórnarskránni. Það er erfiðara að breyta stjórnarskránni vegna þess að hún krefst þess sem grundvallarplagg að það sé ekki hægt að sveifla henni fram og til baka eftir geðþótta eins og við vitum, jafnvel í óstöðugu stjórnarfari eins og við þekkjum svo ágætlega hér þar sem hefur verið skipt um valdhafa einu sinni á ári.

Þess vegna langar mig í beinu framhaldi af þessu sem við erum að tala um núna að vísa í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Mig langar að vísa í jafnræðisregluna. Til þess, hæstv. forseti, verð ég náttúrlega að setja upp gleraugun. Ég tengi þetta við það sem við erum að tala um núna. Ég tengi það við jafnræði, við drengi, við stúlkur, ég tengi það við fólk. Þess vegna eigum við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Við erum að vernda fólk af öllum kynjum og tölum og föllum ef svo má að orði komast.

Bann við umskurði drengja er jafnréttismál, því í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis …“

Í 2. mgr. 65. gr. segir:

„Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Það er alveg ljóst að þegar kemur að rétti og skyldum má ekki mismuna eftir því hvort um er að ræða drengi eða stúlkur. Um þetta erum við öll sammála, hæstv. forseti. Ég vil virkilega trúa því. Öll íslenska þjóðin er sammála. Við erum sammála um jafnrétti kynjanna, um það þarf hvorki að deila hér í ræðustóli Alþingis né nokkurs staðar annars staðar. Hlutverk okkar þingmanna er að tryggja eftir fremsta megni að jafnrétti sé virt í lögum og framkvæmd þeirra.

Í 218. gr. almennra hegningarlaga segir, með leyfi forseta:

„Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Staðreyndin er sú að við höfum sett í almenn hegningarlög viðurlög, refsingu, við því að valda líkama eða heilsu stúlkubarns tjóni með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti. Okkur ber skylda til að vernda drengi okkar með sama hætti, með sambærilegri lagasetningu. Af hverju? Jú, af því réttur drengja og stúlkna er sá sami. Hann er varinn af stjórnarskránni okkar, hana eigum við að virða. Það gerum við náttúrlega sannarlega með því að samþykkja þetta frumvarp sem hér liggur fyrir.

Í framhaldi af þessu, fyrst við erum að tala um grundvallarlögin okkar, fyrst við erum að tala um mannréttindi, mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, þá liggur líka beinast við að vísa í 68. gr. stjórnarskrárinnar. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa það sem kemur þar fram í 1. mgr.:

„Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Hvað þýðir það að beita pyndingum? Hvað þýðir það þegar er ráðist á heilbrigðan fullkominn líkama lítils barns sem í rauninni — þetta er svo erfitt að segja þetta, ég verð bara miður mín þegar ég sé fyrir mér það sem við höfum þurft að horfa upp á núna, við höfum fengið alls konar sendingar. Við erum að fá skýrslur frá læknum. Það eru þúsundir lækna alls staðar í Evrópu sem hafa sent okkur stuðning við þetta frumvarp. Þeir hreinlega segja: Hjálpið til við að setja fordæmi.

Einhvern tímann verðum við að kalla fram breytingar. Hvernig förum við að því? Einhver verður að sýna djörfung og dug. Þó það væri ekki nema litla Ísland af því að við eigum lög og við eigum reglur sem er ætlast til að við fylgjum. Þurfum við að tala um hefðir og siði sem komust á fyrir þúsundum ára einhvers staðar annars staðar? Þurfum við að spá í það þótt einhvern tímann hafi einhverjum fundist eðlilegt að éta fólk? Þurfum við yfir höfuð að hugsa um eitthvað annað en hér og nú, að reglurnar okkar eru þær reglur sem öllum þeim sem okkur vilja sækja heim ber að fylgja ekki síður en okkur hinum sem búum hér? Til þess að geta átt í samfélagi þá verðum við að byrja á því að virða hvert annað og það er a.m.k. lágmark að virða þau lög og þær reglur sem við höfum sett okkur sjálf til að fylgja og fara eftir.

Ísland hefur skorið sig úr. Við skorum hátt í því að vera mannúðleg, að verja jafnrétti kynja og ýmislegt annað sem við í rauninni vekjum athygli fyrir af því að það er auðveldara fyrir okkur svona fá eins og við erum. Ég er montin af því að vera Íslendingur. Við getum líka verið það. Þá segi ég: Það er til okkar litið. Það er verið að treysta á okkur núna til þess að standa í fæturna og segja: Okkar lög, við munum virða þau. Við virðum mannréttindi. Við virðum frelsi einstaklingsins til að taka eigin ákvarðanir, alveg sama hverju pabbi og mamma trúa.

Það er enginn að tala um það að þeir einstaklingar sem fylgja trúnni, hvort sem það eru gyðingar eða múslimar, geti ekki seinna meir tekið þessa ákvörðun sjálfir, enda er það nákvæmlega það sem málið snýst um, að við fáum að ákveða það sjálf þegar við höfum vit og þroska til hvert okkar lína stefnir, hver er okkar lífsins leið.

Ég hef í rauninni ekki neinu við þetta að bæta. Ég segi aðeins þetta: Við eigum okkar lög og reglur. Við eigum okkar jafnrétti og við eigum okkar mannlíf. Við eigum sáttmála, barnaverndarlög, mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, bann við pyndingum og sjálfsákvörðunarrétturinn, hæstv. forseti, er öllu æðri. Við eigum að ráða því sjálf hvort einhvers staðar sé af okkur klippt eða á okkur bætt.