148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta.

178. mál
[18:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann kom inn á það sem ég hugðist spyrja út í næst. Ég hafði heyrt því fleygt í umræðunni að það væri ekki endilega eftirspurn eftir því að flytja inn á sjúkrastofnun hafi fólk sjálft ekki þörf fyrir það. Hinn punkturinn gengur út á það að það væri kannski ekki endilega hagur viðkomandi. Þegar fólk fer inn á hjúkrunarheimili er það af þeirri ástæðu að það þarf á mikilli umönnun að halda. Getur það hreinlega verið þannig að slíkt sambúðarform inni á hjúkrunarheimili ýti undir það að einstaklingur þurfi að hjúkra eða þjóna veikum maka sínum of mikið og taki þar af leiðandi álag af starfsmönnum, en á móti sé álagið þó of mikið á þann sem flytur þar inn?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í kröfuna um einbýli. Ég stend reyndar í þeirri meiningu að þegar við erum að byggja hjúkrunarheimili í dag séu þau hugsuð sem einbýli. Að einhverju leyti held ég að við séum að vinna með þann hluta málsins. Ég hef staðið í þeim sporum að vera að skoða hjúkrunarheimili fyrir ömmu mína og þá var mér sagt það af starfsmönnum hjúkrunarheimilisins að það væri alls ekki svo slæmt að vera í tví- eða þríbýli. Þetta fólk væri nú á þeim aldri að það hefði kannski aldrei upplifað það að vera eitt í herbergi og það væri ákveðinn félagsskapur. Það var nú svolítið verið að ýja að því og reyna að selja manni það að það væri bara nokkuð góður kostur að vera í sambýli með öðrum.