148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta.

178. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum spurningarnar. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kemur þarna inn á mjög mikilvæga punkta: Erum við kannski að útsetja heilbrigða makann fyrir álagi sem hann eða hún ætti ekki að gangast undir? Þetta hefur mikið verið í umræðunni. Innan heilbrigðisgeirans og heilbrigðisþjónustunnar hafa menn oft miklar áhyggjur af því að makar séu hreinlega að slíta sér út vegna umönnunar sinna nánustu. Ég held meðal annars að það sé þess vegna sem ekki er mikið sótt í þessa þjónustu, það hefur ekki mikið verið beðið um þetta, ekki mikið verið talað um þetta. Ég held að það geti verið alveg hárrétt hjá þingmanninum. Auðvitað þurfum við að huga að hag þessara einstaklinga sérstaklega. Þess vegna meðal annars er þessi reglugerðarheimild sem þarna er inni sem á að snúa bæði að réttindum og skyldum sambúðarmakans.

Ég flutti frumvarp fyrir átta árum eða svo um einbýli á hjúkrunarheimilum. Þá vildi ég láta klára þetta mál á næstu fimm árum. Síðan eru liðin átta ár og enn erum við með eitthvað í kringum 500 einstaklinga. Ég held að það þurfi eitthvað svona til þess að ýta við málinu, það þurfi eitthvað svona til að ýta við því að við klárum þetta verkefni. Auðvitað munum við aldrei banna neinum sem alls ekki vill búa einn í herbergi á hjúkrunarheimili að fá að vera með öðrum í herbergi ef slíkur aðili finnst, af því að frumvarpið snýr að réttindum til einbýlis en ekki skyldu til einbýlis.

Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það verði stór alda í samfélaginu sem krefjist þess að einhverjir fái að vera í tvíbýlum.