148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

landverðir.

[15:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst aðeins almennt um þetta mál. Ég tel og er sammála þingmanni um að störf landvarða séu gríðarlega mikilvæg. Það sannast náttúrlega í þjóðgörðum okkar og á friðlýstum svæðum og reyndar víðar, hversu víðfeðmu og umfangsmiklu starfi þeir sinna í raun, eins og þingmaðurinn kom inn á.

Þær áætlanir sem núna er verið að vinna með hjá stofnunum umhverfisráðuneytisins: Ég kannast ekki við að verið sé að draga úr landvörslunni, heldur er frekar verið að auka við hana með því aukna fjármagni sem reyndar á enn eftir að koma til stofnananna og tengist innviðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Nákvæmlega hversu há sú upphæð verður er ekki alveg á hreinu. Gert er ráð fyrir í drögum sem eru í kynningarferli núna að þarna fari aukalega í landvörslu um 320 milljónir á næstu þremur árum. En hvernig nákvæmlega þeim verður skipt á þessi ár á eftir að taka endanlega ákvörðun um, enda er málið í kynningarferli.

Ástandið í sumar ætti alla vega að geta haldið í við það sem það var í fyrra að mínu mati, ég vona það alla vega, einfaldlega út frá þeirri staðreynd að við munum ekki setja minna en sett var í fyrra miðað við að hafa þessa innviðafjármuni. Þeir munu líka koma fyrr til stofnananna en var í fyrra. Í fyrra var það ekki fyrr en í maí en núna munum við geta látið stofnanirnar vita fyrr af því, þær geta þá gert áætlanir um að ráða fólk. Þetta ætti að því leytinu að líta betur út.