148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

úrskurðir sýslumanns í umgengnismálum.

229. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Samkvæmt úrskurðum sýslumanns um umgengni leyfir sýslumaður sér að setja reglur með vísun í venjur og verklagsreglur án nánari skýringa um það hvernig beri að fara með framkvæmd þegar umgengni hefur fallið niður. Hefur sýslumaður ítrekað vísað til þess í úrskurðum sínum, og beinir þeim fyrirmælum til lögheimilisforeldris, að falli umgengni niður af ástæðum er varða barnið, t.d. ef barnið er veikt, eigi umgengni að færast yfir á næstu helgi á eftir eða yfir á annað tímabil. Fyrsta spurning mín er þessi: Á hvaða lagagrundvelli setur sýslumaður slíkar verklagsreglur og hvað finnst ráðherra um að sýslumaður taki sér reglusetningarheimild sem þessa?

Hér er dæmi úr einum úrskurði sýslumanns, með leyfi forseta:

„Sýslumaður telur rétt að benda á að auk gildandi lagareglna um umgengnismál hafa í framkvæmd mótast skýrar verklagsreglur og fastmótaðar venjur um mörg þeirra atriða sem aðilar umgengnismála deila um. Meðal þeirra er venja að ef umgengni fellur niður af ástæðum er varða það foreldri sem barn býr hjá fari umgengnin fram viku síðar án þess að hafa áhrif á hina reglubundnu umgengni framvegis.“

Önnur spurning: Í 20 gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir að öllum þeim sem stöðu sinnar eða starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna sé skylt að hafa samstarf við barnaverndaryfirvöld. Sýslumaður ræðir hins vegar oft við börn þegar umgengnismál eru til rannsóknar í þeim tilgangi að rannsaka vilja barnsins hvað varðar umgengni og á hverju hann byggir. En málsmeðferð er þannig að fulltrúi sýslumanns vísar þeim þætti málsins til sérfræðings innan sýslumannsembættisins sem tekur síðan viðtal við barnið hjá sýslumanni. Viðtöl þessi eru tekin í einrúmi, án vitna og án þess að þau séu tekin upp í hljóði eða mynd. Hvernig samræmist það reglu 20. gr. barnaverndarlaga? Er sýslumanni ekki skylt og rétt að hafa fulltrúa barnaverndar viðstaddan þegar rætt er við barn? Ég spyr hvort nauðsyn beri ekki til að slík viðtöl séu tekin upp, að minnsta kosti hljóðið, svo að aðilar máls geti fengið aðgang að þeim? Með þeim hætti yrði tryggt gagnsæi í stjórnsýslunni hvað þessi mál varðar. Enginn nema umræddur sérfræðingur veit hvað spurninga var spurt eða að minnsta kosti hverju barnið svarar.

Þriðja spurning: Hvers vegna hafa ekki verið settar leiðbeiningar eða starfsreglur í samræmi við 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og lögin kveða á um, samanber það sem kemur fram í greinargerð, með leyfi forseta:

„Í 3. gr. samningsins er þess krafist að þar til bær stjórnvöld setji starfsreglur fyrir allar stofnanir, þjónustu og aðstöðu sem ætluð er börnum og að ríkisvaldið tryggi að þær kröfur séu uppfylltar.“

Fjórða spurning: Með hvaða hætti tryggir ríkisvaldið að þær kröfur sem barnasáttmálinn gerir séu uppfylltar af hálfu stjórnvalda og þeirra sem fara með opinbert vald sem varðar börn, samanber ofangreindar spurningar? Er 20. gr. barnaverndarlaga í raun bara merkingarlaus hvað þetta varðar?