148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallar ítarlega um ýmis mál og þann 21. nóvember sl. var fjallað um Fiskistofu og hvernig sú stofnun rækir sitt lögbundna hlutverk.

Þar voru sögð mjög alvarleg tíðindi af starfsemi Fiskistofu. Erfitt er að túlka orð fiskistofustjóra sem féll í þættinum á annan veg en þann að stofnunin geti ekki sinnt hlutverki sínu og að sjávarútvegsráðuneytinu sé kunnugt um það. Fiskistofa virðist hreinlega hafa gefist upp á að rækja skyldur sínar. Rannsóknir benda til umfangsmikilla brota en Fiskistofa hefur ekki fylgt öllum málum eftir og ekki rannsakað stór mál í fimm ár. Eðlilegt er að spyrja hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra leggi blessun sína yfir það eða þingið almennt. Hvati er innbyggður til að svindla ef eftirlitið er veikt og regluverkið sem stjórnvöld setja hjálpar ekki stofnuninni til að rækja hlutverk sitt.

Einnig kom fram í Kveik að umtalsverður munur sé iðulega á lönduðum og unnum afla, menn viti að ísmagn sé falsað við vigtun og að útilokað sé að hafa eftirlit með endurvigtun. Lögin segja til um vigtun afla á hafnarvog en einnig um endurvigtun — og endurvigtunin ræður. Mér finnst augljóst að eitthvað er athugavert við það ef kaupandi, seljandi og sá sem vigtar er einn og sami aðilinn. Og hvaða áhrif hefur meint misferli á mati á raunverulegri stöðu auðlindarinnar á laun sjómanna og tekjur hafna? Eftirlitsmönnum Fiskistofu hefur fækkað á undanförnum árum úr 44 í 24 og fjármagn til rekstrar skorið niður. Nauðsynlegt er að skoða þessi mál ofan í kjölinn og vonandi munu hv. þingmenn úr öllum stjórnarflokkum samþykkja skýrslubeiðni (Forseti hringir.) sem borin verður fram um það á næstu dögum.