148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú stendur yfir búnaðarþing og bændur ræða sín mál. Ég var svo heppinn að hitta nokkra þeirra í gær og eiga tal við þá. Af því merkti ég ekki annað en að hugur sé í mönnum þrátt fyrir brekkuna sem bændur klífa nú. Það kemur ekki á óvart því að svo sannarlega hafa íslenskir bændur staðið vaktina, ræktað landið og framleitt gæðafæðu, sem vissulega nýtur nokkurrar sérstöðu þar sem t.d. má nefna að hér er lyfjanotkun hvað lægst í heiminum og bann er við notkun á erfðabreyttu fóðri í sauðfjárrækt. Markmið landbúnaðarkerfisins falla öll í þá átt að tryggja landsmönnum heilnæm matvæli í hæsta gæðaflokki sem uppfylla ýtrustu skilyrði um aðbúnað dýra. Engin merki eru sjáanleg um að einhver tilslökun sé í boði.

Hæstv. forseti. Fram hefur komið að bændur eru uggandi vegna nýlegs dóms EFTA-dómstólsins sem heimilar innflutning á ferskum landbúnaðarvörum frá Evrópuríkjum. Þær áhyggjur eiga fyllilega rétt á sér því að innflutningi fylgir hætta á smiti auk þess sem stóraukinn innflutningur mun líklega höggva skörð í raðir bænda. Þá erum við að tala um verulega búseturöskun því að landbúnaður er hryggjarstykkið í byggðum landsins og sá þáttur sem heldur mörgum samfélögum saman.

Hæstv. forseti. Það skýtur skökku við að í öðru orðinu tölum við stolt um hátt menntunarstig þjóðarinnar en í hinu orðinu tökum við bara mark á fræðimönnum okkar þegar það hentar. Vísa ég þá til orða dr. Margrétar Guðnadóttur sem varaði alvarlega við innflutningi á kjöti og lifandi gripum. Með því vildi hún vernda heilsu bústofna og landsmanna. Ef við erum í alvörunni að tala um óheftan innflutning þá skulum við alla vega að gera sömu kröfur um aðbúnað búfjár, vinnuumhverfi bænda og verkafólks, hreinleika afurðanna, rekjanleika allrar framleiðslunnar og kolefnisfótspor. Liggi þetta allt ljóst fyrir óttast ég ekki samanburð við íslenskan landbúnað. Samkeppnin verður að vera á jafnréttisgrunni.