148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Með stofnun Landsréttar átti sér stað eitthvert stærsta framfaraskref sem orðið hefur í íslensku réttarkerfi. Með Landsrétti færðumst við loksins nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur er varðar áfrýjunardómstól. Vil ég leyfa mér að vitna í orð Ólafar heitinnar Nordal er mælti fyrir breytingu á dómstólalögunum á sínum tíma, en í máli hennar hér á þingi kom fram að að hennar mati væri um að ræða verulegar umbætur á íslensku réttarkerfi sem fælu í sér mikilvæg framfaraskref.

Virðulegur forseti. Ég er henni sammála. Landsréttur var ekki stofnaður á einni nóttu. Á bak við stofnun Landsréttar lá þrotlaus vinna starfsfólks dómsmálaráðuneytis, áður innanríkisráðuneytis, árum saman sem og vinnuhóps sem falið var að undirbúa stofnun þessa mikilvæga áfrýjunardómstóls. Nefnd um millidómstig kom einnig að málinu og var jafnframt kallaður til rýnihópur fagfólks til að gefa álit sitt á frumvarpi er varðaði Landsrétt.

Af hverju öll þessi vinna? Jú, vegna þess að fagmennska við stofnun heils dómstigs er algjörlega nauðsynleg. Það skiptir máli vegna þess að dómstólar eru einn af þremur stólpum samfélagsins og er í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að finna þá grundvallarreglu að dómsvaldið sé aðgreint frá löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Við skipan Landsréttar var farin sú leið að í stað þess að ráðherra stæði einn að málum skyldi Alþingi vera nokkurs konar öryggisventill með framkvæmdarvaldinu svo tryggt væri að flokkspólitík kæmi þar hvergi við sögu.

Við Íslendingar viljum teljast til þróaðra lýðræðisríkja og því var mikilsvert að fyrrverandi innanríkisráðherra Ólöf Nordal skyldi vanda svo mjög til verka eins og raun bar vitni. Þess vegna er það þyngra en tárum tekur hvernig hæstv. dómsmálaráðherra Sigríði Ásthildi Andersen tókst til þegar hún var sest í stól dómsmálaráðherra. Í hennar hlut kom það eitt að skipa dómara við Landsrétt og var til verksins fengin matsnefnd sem meta skyldi hæfi umsækjenda.

Mikill áhugi reyndist vera um að taka sæti í hinum nýstofnaða rétti og því var verkið umfangsmikið en niðurstaða nefndarinnar skýr: Nefndin skilaði niðurstöðu sinni um 15 hæfustu einstaklingana og var skýrsla nefndarinnar hvorki meira né minna en 115 blaðsíðna löng. Þegar til kom tók hæstv. dómsmálaráðherra þá ákvörðun að fara gegn niðurstöðu matsnefndar um hæfi umsækjenda og handvelja fjóra einstaklinga sem hún vildi öðrum fremur setja í réttinn, einstaklinga sem ekki þóttu hæfastir til setu í Landsrétti. Bar hún sinn breytta lista undir Alþingi sem þrátt fyrir hávær mótmæli stjórnarandstöðunnar, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, samþykkti lista ráðherra óbreyttan enda vissi meiri hluti þings þá ekki af því að allir sérfræðingar sem að málinu hefðu komið hefðu ráðlagt. hæstv. dómsmálaráðherra eindregið frá því sem hún var við það að gera. Var henni ítrekað tjáð að með því myndi hún brjóta gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Þetta vissu hv. þingmenn ekki þegar þeir fengu þetta verkefni í hendur síðastliðið sumar. Þetta vissu hv. þingmenn og hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir heldur ekki þegar hún gekk til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og flokk hæstv. dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra valdi að hlusta ekki á öll þessi ráð.

Hæstiréttur hefur nú þegar í tvígang komist að þeirri niðurstöðu að hæstv. dómsmálaráðherra hafi við ákvörðun sína ekki uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnsýsluréttarins við embættisfærslur sínar. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur eftir uppkvaðningu dóma í Hæstarétti ítrekað greint svo frá að hún sé ósammála þessari niðurstöðu æðsta dómstóls landsins. Umboðsmaður Alþingis sagði svo í bréfi sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem barst í vikunni, með leyfi forseta, að hann fái ekki annað séð en að þar, þ.e. í dómum Hæstaréttar, sé nægilega upplýst um málsatvik og lagaatriði og því sé ekki nauðsyn á frekari rannsókn á starfsháttum ráðherra hvað þetta varðar. Þetta, virðulegur forseti, heitir á fagmáli að málið teljist upplýst.

Virðulegur forseti. Embættisfærslur hæstv. dómsmálaráðherra voru í andstöðu við stjórnsýslulög. Eftir uppkvaðningu hæstaréttardóma hefur ýmislegt fróðlegt komið í ljós varðandi feril málsins innan ráðuneytis sem einnig orkar tvímælis. Hefur komið fram að ráðherra fór gegn öllum ráðum sérfræðinga innan sem utan ráðuneytis. Einnig byggði hæstv. dómsmálaráðherra vörn sína á því að hún bæri ekki ábyrgð heldur Alþingi sem hefði greitt atkvæði um skipanina. Slík málsvörn hefur einnig verið slegin út af borðinu með dómum Hæstaréttar. Loks lýsti hæstv. dómsmálaráðherra því yfir að henni hefði verið nauðugur einn kostur að fara þessa leið enda tíminn naumur eða einungis tvær vikur. Einnig það reyndist rangt. Í áðurnefndu bréfi umboðsmanns Alþingis segir að umræddur tveggja vikna frestur eigi ekkert við um skipan dómara í Landsrétt svo að sú málsvörn ráðherra gengur heldur ekki. Þá sagði einnig í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta, að ófullnægjandi rannsókn máls og ágallar á mati stjórnvalds verði almennt ekki réttlætt á grundvelli sjónarmiða um málshraða.

Virðulegur forseti. Í dag er staðan sú í íslensku réttarkerfi að fjöldi dómsmála vegna embættisfærslna hæstv. dómsmálaráðherra liðast um allt hið íslenska réttarkerfi, öll dómstigin, héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt, og má vænta þess að þau muni á endanum ná út fyrir landsteinana enda snýst málið fyrst og fremst um sjálfstæði dómstóla samanber stjórnarskrá og samanber 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sjálfstæði dómstóla skal vera ótvírætt og hafið yfir allan vafa. Sé vafi fyrir hendi er nauðsynlegt að lagfæra ágalla án tafar.

Virðulegur forseti. Sjálfstæði Landsréttar er ekki hafið yfir vafa eftir meðferð hæstv. dómsmálaráðherra við skipan dómara. Það verður að lagfæra svo bæta megi úr því tjóni eða minnka það tjón sem orðið hefur. Stjórnarandstaðan hefur nú um margra vikna skeið innt forystumenn ríkisstjórnarinnar svara við hinni augljósu spurningu hvort dómsmálaráðherra sé sætt í ráðherrastól en svo virðist sem leiðtogar ríkisstjórnarinnar átti sig ekki á alvarleika málsins og er það miður. Íslenskir skattgreiðendur hafa nú þegar fengið fyrstu reikningana inn til sín vegna ólögmætra embættisfærslna dómsmálaráðherra og verði ekki brugðist við er hættan fyrir hendi um að ógilda þurfi alla dóma hins nýja Landsréttar mörg ár aftur í tímann. Um þetta, virðulegur forseti, snýst málið og því greiðum við í dag atkvæði um vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra svo að endurreisa megi hið nýja dómstig, Landsrétt.