148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það vita allir í þessum þingsal að listi hæfnisnefndar hefði ekki farið óbreyttur í gegnum þingið. Hann hefði ekki verið samþykktur. Í þessu máli er grundvallaratriði að hafa í huga að Hæstiréttur hefur staðfest að dómsmálaráðherra var í fullum rétti til að gera breytingar á dómaraefnum. Dómsmálaráðherra hefur sagt að hún hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni eins og hún taldi fullnægjandi.

Dómsmálaráðherra er reyndur og farsæll lögmaður. Það er engin ástæða til að rengja að hún hafi þar verið í góðri trú og fráleitt að ákvörðun ráðherrans hafi byggst á geðþótta eða ásetningi. Á þessu er lykilmunur. Það er sjálfsagt að læra af þeim dómum sem skýra gildandi löggjöf sem gerist eins og við vitum reglulega en að fullyrða að mat Hæstaréttar á því að ráðherra hafi getað sinnt rannsóknarskyldu sinni betur sé tilefni til að leggja fram vantrauststillögu er fyrirsláttur í pólitískum leik sem gerir lítið til að auka virðingu Alþingis nema síður sé.