148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er orðinn ákveðinn spekileki á milli mín og hv. sessunautar míns þannig að við erum að fara að ræða um sama málið sem vill svo til að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom líka inn á, þ.e. traust. Það virðist vera að malla eitthvað á þessum bletti þarna. Það er að einu leyti miður að hv. þm. Helgi Hrafn skuli koma inn á þetta því að meðan ég hlustaði á hv. þm. Brynjar Níelsson tala orti ég vísu sem nær ekki utan um hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson en ég læt hana engu að síður flakka:

Í pontu brattur Brynjar fer

og brýnir sína raust.

Hann efni í ræðu rændi af mér

ég ráðgast vildi um traust.

Það er akkúrat það sem ég vildi gera og ágætt að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafi komið inn á það hér að það er nefnilega ekki rétt að traust á Alþingi sé að minnka. Það eykst einmitt. Þjóðarpúls Gallup sýndi að milli febrúarmánaða 2017 og 2018 jókst það um 7 prósentustig.

Ég ætla hins vegar ekki að vera jafn brattur og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og fullyrða að ég viti ástæðuna, koma með tilgátu og bæta við, með leyfi forseta, svo ég vitni í hv. þingmann:

„Ég held að hún sé rétt.“

Ég veit ekkert af hverju traustið eykst. Ég held að það séu margir þættir í því og ég held að ekkert okkar ætti að eigna sér það, hvorki við í stjórnarmeirihlutanum né fólk í stjórnarandstöðu. Kannski er það af því að stjórnarandstaðan stendur sig svona vel, ég veit það ekki. Það er kannski út af því. Ég gæti staðið hér og sagt að það væri af því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefði aukið traust á Alþingi um 7 prósentustig. Ég held að það sé ekki ein skýring á einu eða neinu. Það jókst nefnilega líka frá 2016–2017. Eitthvað er að gerast, eitthvað erum við að gera rétt. Aðdáendur fótboltamanna eru oft þannig að þeir eru svo hrifnir af sínum manni að þeir tala hinn niður. Þeir sem fíla Ronaldo mæra hann svo mikið að þeir segja næstum því að Messi sé lélegur.

Ég held að við eigum ekki að verða þannig, ég held að við séum öll hér að fikra okkur áfram eftir einhverri réttri leið. Ég bið okkur öll (Forseti hringir.) að hugsa hvað það er sem við erum að gera rétt og gera meira af því sama.