148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[15:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands er þungur áfellisdómur um það hvernig til hefur tekist við þá uppfinningu. Skýrslan staðfestir að Sjúkratryggingar Íslands er stofnun sem er veikburða fædd og hefur aldrei fyllilega staðið undir væntingum. Það er mikið álitamál hvort sú hugmyndafræði sem starfsemin byggir á er ekki uppfull af misskilningi um viðskiptaumhverfi í heilbrigðisþjónustunni, kaup og sölu eins og á markaði, að heilbrigðisþjónustan sé eins og hver önnur hilluvara. Þetta eru innfluttar hugmyndir sem miðast við milljónasamfélög, en við erum lítil örþjóð þar sem kunningja-, ættar-, og vildarvinaósiðir hafa fengið að skjóta djúpum rótum. Allnokkur einkenni eru þar hvað varðar málefni Sjúkratrygginga Íslands. Tengsl við stærsta stjórnmálaflokk landsins allt frá upphafi eru og hafa verið sláandi og óeðlileg. Fingraförin leyna sér ekki, allt frá forstjóra til stórra þjónustuaðila. Þessi tengsl og verklag eru aðfinnsluverð og ættu jafnvel að vera tilefni sjálfstæðrar skoðunar.

Skýrslan staðfestir að þegar Sjúkratryggingar Íslands hófu starfsemi sína árið 2008 var gert ráð fyrir að starfsmenn með sérþekkingu innan ráðuneytis Tryggingastofnunar, heilsugæslunnar og Landspítala flyttust yfir til Sjúkratrygginga til að efla stofnunina og stórbæta samningsstöðu ríkisins varðandi það að véla með heilbrigðisþjónustu. Ekkert af því hefur verið gert. Skortur á sérþekkingu og samningagerð er viðvarandi ef marka má það sem fram kemur.

Það er samdóma álit þeirra sem að skýrslunni koma að gæðaeftirlit hafi ekki verið fyrir hendi frá því að Sjúkratryggingar Íslands tóku til starfa. Mikið hafi skort á að fagleg rök og hagkvæmni hafi ráðið för, og heldur hafi jafnvel ráðið miklu áhrif einstakra heilbrigðisstarfsmanna eða faghópa. Með öðrum orðum hefur verið farið óvarlega með opinbert fé.

Skýrslan reifar í nokkrum atriðum hvernig heilbrigðisstofnanir eru fjármagnaðar. Afdrifin ráðast hreinlega af því hvort stofnanir eru á föstum fjárlögum eða ná samningum við Sjúkratryggingar Íslands þar sem framleiðslutengd fjármögnun gildir, þ.e. þar sem beinlínis er greitt fyrir þau verk sem unnin eru. Það kerfi er nú í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og mun taka gildi á þessu ári á Landspítala að hluta. Þetta breytir miklu. Þar eru augljósir kostir en margt ber að varast, eins og reynslan í nágrannalöndunum hefur sýnt fram á og einnig er tæpt á í skýrslunni.

Með einföldum verkgreiðslum er hætta á auknum kostnaði vegna meiri framleiðslu, að slíkt fyrirkomulag hvetji til offramleiðslu á kostnað gæða. Því er mikilvægt að í samningum séu skýrar skilgreiningar um magn, gæði, hagkvæmni og ekki síst jafnræði til handa öllum landsmönnum.

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna sérgreinalæknisþjónustu hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum, langt umfram aðra þætti og langmest á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma hafa opinberar heilbrigðisstofnanir verið sveltar niður á hnén. Samkvæmt öllu eðlilegu mætti ætla að það endurspeglaði heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu í landinu og væri í samræmi við ítarlegar greiningar, en svo er því miður alls ekki. Þarna ræður kylfa kasti.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að ekki hefur verið gætt hlutlægni í kaupum og sölu á heilbrigðisþjónustu heldur er heilbrigðisþjónustan seld út og suður eftirlitslítið og engin yfirsýn er um hvort fagleg markmið náist og hvort þjónustan standist í raun kröfur um hagkvæmni og verðlagningu.

Skýrslan sýnir fram á veikburða viðleitni til samanburðar á kostnaði milli stofnana, sennilega til að varpa ljósi á mikilvægi þess að þjónustan sé vel kostnaðargreind. En það er eins og svo margt annað í okkar góða heilbrigðiskerfi, það er í skötulíki á Íslandi. Drepið er niður fæti í endurhæfingargeiranum og því varpað fram að mikill munur sé á kostnaði við rekstur á endurhæfingarmiðstöðinni í Reykjalundi og heilsustofnuninni í Hveragerði. Sá samanburður er fjarstæðukenndur þar sem þessar stofnanir eru ekki sambærilegar, en báðar eru þær mikilvægar. Ef bera á kostnað við umfangsmikla endurhæfingu á Reykjalundi saman við sambærilegar stofnanir þarf að leita út fyrir landsteinana, t.d. til Sunnaas í Noregi, en þar er sambærileg þjónusta líklega tvöfalt dýrari en á Reykjalundi.

Viðmót Sjúkratrygginga Íslands gagnvart opinberum heilbrigðisstofnunum hefur líka verið með hreinum ólíkindum, ekki síst á landsbyggðinni. Mikið ógagnsæi. Við eigum líklega um 20.000 m² af vel búnu húsnæði hér á suðvesturhorninu sem eru algjörlega vannýttir, húsnæði sem við eigum sameiginlega, ríkið, kaupandi þjónustunnar, seljandinn og greiðandinn. En við erum tengd villuráfandi inn á markaðstorg viðskiptanna. Við vitum harla lítið hvað við fáum fyrir peninginn og aðgangur að sjúkraskráningu er sömuleiðis takmarkaður. Við eigum að fela okkar eigin stofnunum hlutverk við hæfi, efla þær og styrkja.

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur viðurkennt að talsverður glundroði ríki í kerfinu og líklega er hann hvergi jafn sláandi og gagnvart Sjúkratryggingum Íslands. En stofnuninni er vorkunn. Leiðarljósið í starfseminni ætti auðvitað að vera stefna heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustuna. Gallinn er bara sá að heildstæð stefna í þeim anda sem lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um og lög um sjúkratryggingar vísa til hefur aldrei verið sett fram svo ekki er von á góðu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir stefnumörkun í sátt við þing og þjóð, sem er mikil áskorun en grundvallaratriði. Í því mun hún eiga stuðning Samfylkingarinnar vísan sem talar fyrir öguðu frjálsræði og skilvirkni í kerfinu. Sú endurskoðun sem fram fer hlýtur að leiða hugann að því hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða hlutverk og starfsemi Sjúkratrygginga Íslands, sem að mínu áliti var skýjaborg Sjálfstæðismanna sem nú er hrunin.