148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Ég lýsi ánægju minni með frumvarpið. Mér finnst það mikilvægt, mér finnst tímabært að það nái fram að ganga. Eins og hér hefur verið reifað hefur það áður verið lagt fram en var ekki klárað. Þetta er löngu orðið stórt og mikið vandamál, sérstaklega innan ákveðinna íþróttagreina. Við heyrum því miður of oft af því þegar fólk fellur á lyfjaprófum. Það á ekki bara við um karla, þetta á því miður líka við um konur. Neysla kvenna á þessum efnum hefur færst í aukana. Ég er sannfærð um að við þurfum að taka á þessu. Það er líka gott að sjá að samkvæmt 5. gr. getur ráðherra ákveðið með reglugerð að bæta við þennan flokk ef um er að ræða önnur efni eða lyf sem ekki eru tilgreind í frumvarpinu. Ég held að það sé af hinu góða.

Þegar maður þekkir afleiðingar þess að fólk fer illa með og misnotar stera eða önnur slík efni er maður meðvitaður um hversu nauðsynlegt er að setja löggjöf sem reynir að hamla innflutningi og ólöglegri sölu, ná utan um þann vanda með einhverjum hætti. Hvort lög ein og sér ná utan um það, veit ég ekki, en það er a.m.k. tilraun til að þeir sem reyna að leggja hald á þessar vörur, stöðva þennan innflutning, hafi skýran lagaramma á bak við sig.

Það var rætt síðast og líka núna um fangelsisvist eða sektir, hvort slíkt ætti rétt á sér og skilaði árangri eða ekki, eða hvort hægt væri að færa okkur meira í átt til betrunar. Ég held að við séum flest sammála því að betrun er betri kostur en fangelsisvist og á að vera stærri hluti í refsivörslukerfinu. Fangelsisvistun er ekki í öllum tilvikum óskynsamleg, ég veit svo sem ekki hvort hún er það í þessu tilviki eða ekki, þetta er alltaf spurning um það hvað verður til þess að koma í veg fyrir að fólk brjóti lögin, hvað þarf að gerast til þess að maður ákveði að taka ekki sénsinn. Ég veit ekki hvort þetta er rétt nálgun en það er þá eitt af verkefnum velferðarnefndar að fara yfir það með þar til bærum aðilum.

Þó að steranotkun hafi verið leyfð fyrir margt löngu þá sjáum við afleiðingarnar af langvarandi steranotkun á fullorðnu fólki akkúrat núna. Maður þekkir hin geðrænu áhrif, manísku einkennin á meðan á neyslu stendur, þunglyndi sem birtist í fráhvörfunum fyrir utan margt annað sem slík neysla hefur í för með sér eins og önnur ofneysla.

Ég ætla að ítreka að ég er ánægð með að þetta frumvarp er komið fram. Ég vona svo sannarlega að það nái utan um það sem því er ætlað að gera, að auðvelda takmörkun á innflutningi á ólöglegum efnum, að auðveldara verði að gera slík efni upptæk, og það verði til þess að færri þori að taka sénsinn.