148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á frumvarpi um breytingu á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir.

Það eru einkum tvö atriði sem ég tel mikilvægt að ræða hér í ræðustól og halda til haga í þessari umræðu áður en málið gengur til nefndar. Þetta eru atriði sem voru rædd í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar við afgreiddum málið út úr þingflokknum hjá okkur, annars vegar það sem lýtur að bakgrunnsathugun. Ég átta mig á hvað bakgrunnsathuganir varðar að brugðist hefur verið við ábendingum, m.a. frá Persónuvernd, þar sem þær voru taldar ganga of langt eins og frumvarpið leit út þegar það var lagt fram fyrir nokkrum misserum. En mér finnst mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd kafi engu að síður sérstaklega ofan í þann þátt og ræði aftur við Persónuvernd. Þó svo að brugðist hafi verið við athugasemdum er ekki þar með sagt að nóg hafi verið að gert og ég tel að þar sé rannsóknarskylda hv. nefndar rík. Hún eigi að taka þetta mál til gagngerrar skoðunar.

Hins vegar vil ég nefna það sem einnig var rætt um í andsvörum áðan, þ.e. það sem varðar laumufarþega. Ég geri mér alveg grein fyrir að það getur hreinlega verið hættulegt þegar verið er að brjótast inn á svæði, ég tala nú ekki um þegar flugið á í hlut. Þess vegna finnst mér í rauninni bara eðlilegt að ólíkur refsirammi sé þegar kemur að því sem lýtur að siglingavernd annars vegar og hins vegar fluginu.

Nú erum við með dæmi fyrir augunum um hælisleitendur sem hafa í neyð sinni verið að reyna að komast úr landi og ég held að það liggi alveg fyrir að þeir hafi ekki verið að brjótast inn í ágóðaskyni eða til að reyna að eignast einhverja muni eða eitthvað slíkt. Þeir eru hreinlega í innilokaðri stöðu og reyna að komast út úr landinu.

Ég fagna því að ráðherrann sagði í andsvörum að hann teldi að þetta væri eitthvað sem hv. þingnefnd ætti að skoða og ég tel það algerlega nauðsynlegt og vil beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að ræða þetta mál sérstaklega við Rauða krossinn vegna þess að hann hefur haft með málefni hælisleitenda mikið að gera og þekkir vel til slíkra dæma. Mér finnst að Alþingi eigi að skoða virkilega vel hvort hægt sé að búa um málin þannig að það verði einhvers konar mildari refsiúrræði eða að tekið sé tillit til neyðar fólks þegar kemur að þessum málum. Staða hælisleitenda sem eru hreinlega hræddir um líf sitt og framtíð er auðvitað alveg gríðarlega alvarleg. Mér finnst alveg ótækt að við séum að auka á vanda þeirra með því að dæma öllu harðari fangelsisrefsingar. Það er ekki það sem ég tel að við, hvorki þeir né við sem samfélag, höfum neinn gróða af, heldur þurfum við að finna einhverja aðra og mannúðlegri leið í þeim efnum.

Ég treysti því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki auðvitað málið allt til gagngerrar skoðunar, en sérstaklega þau tvö atriði sem ég hef rakið.