148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Þjóðskrá Íslands.

Frumvarpinu er ætlað að setja ramma utan um stofnunina Þjóðskrá Íslands, verkefni hennar og hlutverk. Sérstakri stofnun, Þjóðskrá, var komið á fót með lögum nr. 54/1962 til að annast almannaskráningu. Með lögum nr. 77/2010, um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, sem tóku gildi 1. júlí 2010, var kveðið á um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands í eina stofnun sem skyldi heita Þjóðskrá Íslands, og heitir. Fyrrnefnd lög um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands eru fáorð og kveða ekki á um neitt annað en sameininguna og að til verði ný stofnun sem beri heitið Þjóðskrá Íslands, stjórn stofnunarinnar, persónuverndarákvæði og ákvæði til bráðabirgða um flutning starfsmanna stofnananna beggja í nýja stofnun.

Verkefni Þjóðskrár Íslands eru nokkuð fjölbreytt en tengjast mörg hver því grunnhlutverki að sjá um þjóðskrá og tengdar skrár. Fyrirmæli um verkefni stofnunarinnar er að finna í hinum ýmsu lagabálkum, svo sem lögum um lögheimili, lögum um Þjóðskrá, almannaskráningu, lögum um vegabréf svo fátt eitt sé nefnt. Af framansögðu leiðir að skort hefur á ákvæði um yfirstjórn stofnunarinnar, starfsskyldur forstjóra og samantekt yfir verkefni stofnunarinnar í lögum. Þá hafa gjaldtökuheimildir hennar verið á víð og dreif í lögum.

Frumvarpinu er sem sagt ætlað að bæta úr ofangreindu og þrátt fyrir að vera í styttra lagi er það talsvert ítarlegra en lög um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sem fyrr er getið. Í fyrri hluta frumvarpsins, þ.e. 1.–4. gr., er gerð grein fyrir yfirstjórn, starfsskyldum forstjóra, hlutverki og sölu á sérfræðiþjónustu.

Fram kemur í 1. gr. að Þjóðskrá Íslands sé sérstök stofnun sem heyri undir ráðherra. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi forstjóra til fimm ára og jafnframt er kveðið á um hæfnisskilyrði hans. Gerð er sú krafa að forstjóri hafi háskólamenntun sem nýtist í starfi. Ekki eru efni til að binda hæfni forstjóra Þjóðskrár Íslands við eina tiltekna fagmenntun enda ekki einsýnt að ein menntun henti betur fram yfir aðra við stjórnun stofnunar sem þessarar hjá hinu opinbera. Gert er ráð fyrir að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, móti áherslur, skipulag, verkefni, starfshætti og annist daglega stjórn stofnunarinnar. Vakin er athygli á því að fallið hefur verið frá því að hafa stjórn yfir stofnuninni eins og nú er. Þá er ekki gert ráð fyrir að stofnunin sendi ráðuneytinu skipurit sitt til staðfestingar ráðherra. Slík ákvæði eru á undanhaldi enda í betra samræmi við sjálfstæði og stjórnunarheimildir forstjóra.

Í 3. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um hlutverk stofnunarinnar og eru þau talin upp í tíu stafliðum. Hér er með öðrum orðum að finna yfirlit yfir öll verkefni stofnunarinnar sem eru t.d. að sjá um þjóðskrá og tengdar skrár, annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa þjóðskrár, sjá um fasteignaskrá og tengdar skrár, gefa út vegabréf og gefa út kjörskrárstofn, svo fátt eitt sé talið. Ákvæðinu er ekki ætlað að leysa einstök sérlög af hólmi sem kveða nánar á um verkefni stofnunarinnar.

Svo sem fram hefur komið er ekki gert ráð fyrir að stjórn sé yfir stofnuninni en rétt er að benda á að ráðherra getur sett á stofn fagráð, fleiri en eitt og fleiri en tvö, í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviðum stofnunarinnar.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild fyrir stofnunina til að bjóða fram sérþekkingu sína á alþjóðamarkaði. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 16. gr. laga um Samgöngustofu, sem er stjórnsýslustofnun samgöngumála, í lögum nr. 119/2012. Í ákvæðinu er lagt til að stofnuninni verði veitt heimild til að bjóða fram sérþekkingu sína á alþjóðamarkaði og afla tekna með útflutningi á sérfræðiþekkingu sem stofnunin býr yfir. Hjá stofnun eins og Þjóðskrá Íslands safnast saman verðmæt sérfræðiþekking og það kann að vera æskilegt að geta miðlað þekkingunni. Þá getur þessi heimild aflað stofnuninni sértekna í formi þjónustugjalda sem renna til stofnunarinnar, en ber einungis að standa undir veittri þjónustu. Ráðuneytið telur nauðsynlegt að ákvæði sem þetta sé í lögum enda ekki sjálfgefið að íslensk stofnun hafi heimildir til að bjóða fram sérfræðiþekkingu sína erlendis.

Í seinni hluta frumvarpsins eða ákvæðum 5.–9. gr. er kveðið á um þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá, kæruheimild, reglugerðarheimild, gildistöku og breytingu á öðrum lögum. Ekki þykir efni til að fara sérstaklega yfir ákvæði um reglugerðarheimild og gildistöku í þessari ræðu, en rétt er að fjalla stuttlega um ákvæðið um þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá, kæruheimild og breytingar á öðrum lögum.

Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá. Ekki er um breytingar frá gildandi rétti að ræða, heldur er heimild til töku þjónustugjalda komin á einn stað þótt kveðið sé á um töku þjónustugjalda í sérlögum eða lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þjóðskrá Íslands hefur í dag heimild til að innheimta þjónustugjöld fyrir ýmiss konar þjónustu og er gerð grein fyrir því í tíu stafliðum. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að við ákvörðun gjalda skuli í gjaldskrá leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu lögbundinna verkefna stofnunarinnar, auk ferða og uppihalds og útlagðs kostnaðar.

Framangreint ákvæði er í samræmi við kostnaðarútreikninga stofnunarinnar til margra ára og byggir á kostnaðarútreikningsmódeli Deloitte frá 2012. Farið hefur verið yfir þetta rækilega í ráðuneytinu og þá hefur Hæstiréttur Íslands einnig farið rækilega yfir þetta við meðferð dómsmáls nr. 837/2014. Rétt er að taka fram að ekki er ætlunin að breyta fjármögnun Þjóðskrár Íslands með lögum þessum.

Í 6. gr. er að finna kæruheimild. Þjóðskrá Íslands hefur þá sérstöðu að vinna verkefni sem heyra samkvæmt forsetaúrskurði undir mismunandi ráðherra. Þá eru sumar ákvarðanir kæranlegar til úrskurðarnefndar. Því var talið rétt að kveða á um að ákvarðanir Þjóðskrár Íslands sæti kæru til viðkomandi ráðherra, samanber forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, nema annað sé tekið fram í lögum.

Loks er rétt að vekja athygli á 9. gr. frumvarpsins en þar er kveðið á um breytingar á öðrum lögum og þar á meðal um kosningalög. Með breytingartillögunum er aðeins verið að renna frekari stoðum undir þau störf sem Þjóðskrá Íslands sinnir og nauðsynleg geta verið við framkvæmd kosninga hverju sinni. Það skal sérstaklega tekið fram að tilgangur heimildar Þjóðskrár Íslands til vinnslu persónuupplýsinga við gerð kjörskrárstofna er að tryggja að stofnarnir séu réttir. Þá er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að samkeyra meðmælendalista við þjóðskrá. Ekki er kveðið á um skyldu til samkeyrslu heldur er heimilt að gera hana að beiðni yfirkjörstjórnar. Tilgangur samkeyrslu meðmælendalista framboðsaðila við þjóðskrá er að tryggja að viðkomandi einstaklingur sé til sem og að hann sé kosningarbær með tilliti til aldurs, ríkisfangs og umdæmis. Ákvæðið þarfnast annars ekki sérstakrar skýringar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.