148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

kjararáð.

[10:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ákvörðun kjararáðs um hækkun launa til þingmanna og ráðherra var umdeild og áhrifa þeirrar ákvörðunar gætir enn í aðdraganda komandi kjarasamninga.

Hins vegar og til viðbótar er það svo að fyrir kosningar 2017 sendi kjararáð bréf til ráðherra sem segir nokkurn veginn svo, með leyfi forseta:

„Laun fyrir vinnu í kjararáði hækkuðu síðast 1. júní 2016.“

Þar segir einnig að frá þeim tíma og fram til ágúst 2017 hafi mánaðarleg launavísitala Hagstofu Íslands hækkað um 7,3%. Því sé lagt til að laun fyrir störf í kjararáði hækki að sama skapi.

Kjarninn birti í gær grein um þessa launahækkun til kjararáðs þar sem ráðherra svaraði 6. desember 2017, stuttu eftir að hann tók við embætti 2017:

„Fallist er á tillöguna. Greiðslur til þeirra sem sitja í kjararáði skulu hækka um 7,3% frá 1. ágúst 2017.“

7,3% miðað við launavísitölu. Launavísitala er mjög spes mælitæki og hækkun miðað við launavísitölu er hækkun umfram aðra. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga því að launavísitalan mælir sérstaklega hvernig launaþróun hvers einstaklings virkar. Ef launamaður í fyrirtæki hættir og minna reyndur aðili kemur lækkar launakostnaður fyrirtækisins en launavísitalan breytist ekkert.

Ég vil því spyrja ráðherra: Væri eðlilegt að hækka laun ráðherra og þingmanna um 7,75% frá því sem hefur verið miðað við hækkun launavísitölu Hagstofu Íslands frá nóvember 2016? Væri ekki eðlilegt að launþegar landsins fengju sömu hækkun miðað við launavísitölu? Ef ekki, af hverju ekki? Ættu þeir kannski bara að senda bréf í ráðuneytið?