148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

falskar fréttir og þjóðaröryggi.

[10:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Svo það sé alveg skýrt tekið fram að þó svo að fyrirspurn hv. þingmanns hafi verið mjög góð, eru þetta ekki nýjar fréttir fyrir okkur í utanríkisþjónustunni. Það er ekki svo. Þetta er eitt af því sem við höfum verið að leggja áherslu á þegar kemur að breytingum í utanríkisþjónustunni að við þurfum að fylgjast enn betur með og leggja enn meiri áherslu á þessi mál en við höfum gert fram til þessa, sem við höfum samt svo sannarlega gert, að koma réttum upplýsingum áleiðis, leiðrétta staðreyndavillur og hreinlega falskar fréttir þegar kemur að Íslandi. Þannig að það er ekkert nýtt í því.

Hv. þingmaður bendir réttilega á að þetta er auðvitað þjóðaröryggismál. Þessi mál hafa sömuleiðis verið rædd í tiltölulega nýstofnuðu þjóðaröryggisráði. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er samvinna margra aðila.

Ég fagna því að hv. þingmaður veki athygli á þessu máli, það er mikilvægt að við ræðum það og höldum vöku okkar. Það er brýning fyrir okkur að gera enn betur. En ég vil þó taka það skýrt fram að það er alls ekki þannig að við í utanríkisþjónustunni höfum við ekki verið með meðvituð um þetta og verið er að vinna að þessum málum.