148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[10:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðuleg forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um Bankasýslu ríkisins. Bankasýsla ríkisins er mikilvæg stofnun eins og kemur fram á vef hennar og þar er greinilega í mörg horn að líta eins og segir í lögum um stofnunina. Í 1. gr. segir að Bankasýsla ríkisins fari með eignarhlut ríkisins í fjármálastofnunum og í 4. gr. eru verkefni stofnunarinnar talin upp og eru þau fjölmörg.

Ef farið er á vef Bankasýslunnar og lesnar fréttir segir þar: Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Á forsíðu eru taldir upp eignarhlutir Bankasýslu ríkisins í bönkunum. Í Arion banka er hlutur Bankasýslunnar sagður 13% og nefndur sá fulltrúi sem tilnefndur er af Bankasýslunni í stjórn bankans. Bankasýsla ríkisins hefur í dag, segir í frétt, lokið sölu á 13% hlut ríkisins í Arion banka til Kaupskila og nam andvirðið 23.452 millj. kr. Þetta er frétt frá 26. febrúar sl. [Kliður í þingsal.]

Síðan kemur að 9. gr. laganna sem ber yfirskriftina Lok starfseminnar:

„Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður.“

Þetta segir í 9. gr. Þetta ákvæði er frá 2009 og stofnunin hefur samkvæmt greininni lokið störfum. Lögin tóku gildi 20. ágúst 2009 og líftími stofnunarinnar er því liðinn fyrir þremur og hálfu ári.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hverju sætir að Bankasýsla ríkisins er enn starfandi? Í öðru lagi: Hvert er gildi skuldbindandi ákvarðana sem stofnunin hefur tekið? Eða er það kannski svo eins og með ófjárráða unglinga að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að skrifa upp á hverja einustu hreyfingu sem á sér stað innan þessarar stofnunar?