148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[11:40]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með forseta að það er furðulegt hve fáir þingmenn eru við umræðuna vegna þess að það mál sem er á dagskrá nú og ég mæli fyrir er væntanlega eitt af þeim málum á þessu þingi, á þessum þingvetri, sem skipta heimilin í landinu hvað mestu máli.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Birgir Þórarinsson, Sigurður Páll Jónsson og Bergþór Ólason.

Frumvarpið er í sjálfu sér afskaplega stutt og einfalt. Ég ætla að lesa frumvarpið eins og það er. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á eftir orðinu „neysluverðs“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: án húsnæðisliðar. 2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þessi yfirlætislausa breyting hefur það í för með sér, ef samþykkt verður, að verðtryggð lán heimila landsmanna munu framvegis taka breytingu samkvæmt neysluverðsvísitölu án húsnæðisliðar. Og hvað þýðir það? Ja, það er hægt að segja í einu orði hvað þetta hefði þýtt ef frumvarpið hefði orðið að lögum fyrir ári. Um daginn kom nefnilega fram nýjasta verðbólgumæling síðustu 12 mánaða þar sem fram kom að verðbólga á Íslandi hefði mælst 2,3%. En án húsnæðisliðar hefði verðbólgan verið neikvæð, þ.e. verðhjöðnun hefði verið um 0,9%. Álitið er að verðtryggð lán heimila í landinu séu u.þ.b. 1.500 milljarðar kr. Sú breyting sem hér er lögð til hefði sparað heimilum landsins 50 milljarða kr. ef frumvarp þetta hefði verið samþykkt fyrir 12 mánuðum.

Hópar hér á þingi hafa haft það á stefnuskrá sinni um nokkurn tíma að afnema verðtryggingu. Þetta frumvarp er í sjálfu sér ágætt fyrsta skref, þ.e. að leiðrétta nú þegar þann grundvöll sem verðtryggð lán heimilanna eru mæld eftir til að sú áhætta sem er af verðtryggðum lánum sitji ekki öll í fangi heimila í landinu, heldur taki lánastofnanir þátt í þeirri áhættu. Þetta er ágætisbyrjun vegna þess að á meðan við veltum fyrir okkur hvernig hægt er að afnema verðtryggingu á lánum yfir höfuð þá er þetta ágætismilliskref til að létta þeim sem eru því ofurseldir að hafa slík lán biðina eftir því að verðtrygging verði aflögð, sem hlýtur að vera markmið sem við stefnum öll að.

Ég sagði áðan að hefði þetta frumvarp verið gert að lögum eða orðið að lögum í fyrra hefði það sparað heimilum landsins 50 milljarða kr. Með sama hætti má segja að sú skipan sem nú er hefur kostað heimili landsins í kringum 180 milljarða undanfarin sex ár, miðað við það ef þetta frumvarp hefði verið orðið að lögum fyrir sex árum.

Það er alþekkt í ríkjum OECD að þar sé notuð svokölluð samræmd vísitala. Inni í henni er húsnæðisliður sem samanstendur af rekstrarkostnaði húsnæðis og húsaleigu, en menn eru hvergi með húsnæðisverð inni í verðtryggingu eða verðlagsmælingu. Og annað er hitt að húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er með þeim hætti, þ.e. bæði húsnæðisverð og leiguverð og leigumarkaðurinn er það óþroskaður að í sjálfu sér væri heldur ekki sanngjarnt, og er ekki sanngjarnt, að húsaleiga eins og hún er og þróun hennar á Íslandi sé að spenna upp lán landsmanna. Húsnæðismarkaðurinn hefur náttúrlega verið sérstaklega erfiður undanfarin ár, bæði út af lóðaskorti og mikið af eignum hefur verið tekið undir gististarfsemi, óskráð nota bene, neðan jarðar, það er líklega stærsta neðanjarðarhagkerfi á Íslandi í dag. Þetta hefur m.a. orðið til þess að húsnæðisverð á Íslandi hefur hækkað úr hófi fram. Áður fyrr var nokkur fylgni má segja. Það var nokkur fylgni í því hvernig vísitala með og án húsnæðisliðar þróaðist, en í kringum árið 2003 skildu leiðir. Þá fór verðlagsvísitalan eða neysluverðsvísitala með húsnæðisliðinn inni í, að mynda mikla gjá þarna á milli. Þessi gjá hefur verið greidd af heimilum landsins til þessa dags. Það er ekki sanngjarnt, síður en svo, og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég átti von á því að umræðan um málið myndi standa hér lungann úr deginum vegna þess að ég veit ekki um mörg stærri mál sem koma til kasta þessa þings. Ég fagna því að vísu að fulltrúi Framsóknarflokksins er staddur í salnum. Sá flokkur lagði nýlega fram þingsályktunartillögu um að kannað verði hvernig hægt væri, og með hvaða hætti, að ýta húsnæðisliðnum út úr vísitölunni. Með þessu frumvarpi er sú tillaga í sjálfu sér óþörf. Ég vænti þess að allir Framsóknarmenn sem hafa haft á stefnuskrá sinni, alla vega síðast þegar ég vissi, tilburði til að taka vísitöluna til endurskoðunar og verðtrygginguna og það hvernig vísitalan er uppbyggð. Ég vona svo sannarlega að við flutningsmenn eigum stuðning Framsóknarmanna vísan í þessu máli vegna þess að við erum búnir að taka af þeim ómakið. Auðvitað skiljum við Miðflokksmenn að þeir eru í þröngri stöðu að leggja sjálfir fram frumvarp um þetta efni, sitjandi eins og mýs undir fjalarketti í ríkisstjórnarsamstarfi og heftir á báðum fótum. En í þetta skipti gefst þeim tækifæri til að styðja mál sem ég veit að þeir eru í hjarta sínu samþykkir. Allt sem þarf er smávegis af kjarki.

Ég er líka mjög forvitinn og verð forvitinn að fylgjast með því hvernig fulltrúar annarra flokka, svo sem eins og Vinstri grænna og Samfylkingar munu taka þessu máli, vegna þess að það eru jú flokkar sem hafa jöfnuð á stefnuskrá sinni og berjast fyrir réttindum og kjörum þeirra sem verst eru settir. Þess vegna trúi ég því líka að stuðningur sé ríkur innan þeirra flokka við það verkefni sem kemur fram í frumvarpinu, að styðja við heimili landsins og styrkja grunn þeirra til frambúðar.

Á þarsíðasta kjörtímabili var lyft grettistaki þegar skuldaleiðrétting kom til framkvæmda og hún sem slík og áhrif hennar eru ekki fjöruð út. Þeir sem nutu skuldaleiðréttingarinnar njóta þess enn þann dag í dag að þeir eru með lægri greiðslubyrði á lánum sínum. Þeir sem hafa haft tækifæri til að taka þátt í séreignarsparnaði, sem var hluti af þeirri lausn, sjá líka lán sín lækka. Þetta hefur orðið til þess að skuldsetning íslenskra heimila fór úr því að vera ein sú hæsta í nágrannalöndunum í það að vera sú lægsta.

En ekki er nóg að gert, herra forseti, og þess vegna þurfum við að breyta þeim rangindum sem felast í núverandi vísitölubindingu lána. Ég á von á því að stórir aðilar rísi upp á afturfæturna, reyni að vernda sína hagsmuni. Ég á ekki von á því að frumvarpinu verði tekið fagnandi í fjármálakerfinu. Ég á ekki von á því að haldið verði sérstaklega upp á það að frumvarpið komi fram í dag, t.d. í lífeyrissjóðum landsins. Og svo önugt sem það nú er hafa þeir sjóðir sem eru í eigu erfiðismanna af Íslandi í sjálfu sér gengið einna harðast fram í að vernda þetta kerfi sem komið var upp fyrir mörgum áratugum, sem heitir verðtrygging. Þeir vindar sem blása um verkalýðshreyfinguna núna, ferskir, verða vonandi til þess að verkalýðshreyfingin og forustumenn hennar leggist á árar með okkur, því að það er ekki sanngjarnt að heimili landsins, lántakar, skuli bera alla áhættu af lántöku við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það getur ekki kallast sanngjarnt og það er ekki sanngjarnt. Og það er heldur ekki boðlegt á þessum tímum að segja fólki um þrítugt, sem er rétt að ljúka námi og vill kaupa sér sína fyrstu íbúð, hvað við bjóðum því upp á. Við bjóðum því upp á 40 ára lán með verðtryggingu. Þetta eru lánin sem eru best. Hvað innifelur það í sér, herra forseti? Að næstu 40 ár borgar lántakinn lánið fjórum sinnum. Hann borgar það fjórum sinnum og fer síðan á eftirlaun. Þetta er stórkostleg mannsævi. Mennta sig vel, koma til starfa þrítugur, taka lán, kaupa íbúð og borga hana fjórum sinnum og fara síðan á eftirlaun. Hugsið ykkur. Þetta erum við að bjóða ungu fólki upp á enn þann dag í dag. Þetta er til skammar.

Herra forseti. Allt það sem ég hef rakið sýnir okkur svo ekki sé um villst hversu ranglátt þetta kerfi er eins og það er núna. Á meðan heimili landsins eru fullhert af því að standa í skilum af lánum til húsnæðiskaupa, því að ekki er nóg með það að verðtryggingin sé ósanngjörn og óréttlát eins og hún er reiknuð núna, heldur eru vextir á Íslandi með þeim hæstu sem gerast á byggðu bóli í boði peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Sem kemur fram á tveggja mánaða fresti og leikur trúð, kemur fram með vaxtaákvarðanir sem eru gjörsamlega úr takti við það sem gerist í siðuðum þjóðfélögum. Það er satt að segja ólíðandi. Vaxtastigið á Íslandi er ólíðandi.

En góðir hlutir gerast hægt og í Bókinni um veginn segir að 1.000 mílna ferð hefjist á einu skrefi. Það er kannski það sem er að gerast hér í dag. Við erum að hefja 1.000 mílna ferð fyrir heimilin í landinu með þessu skrefi. Ég trúi því ekki satt að segja fyrr en ég sé það að frumvarpinu verði ekki vel tekið af öllum þeim sem hér eiga sæti. Ég trúi satt að segja ekki öðru en að hv. alþingismenn taki allir stöðu með heimilunum í landinu vegna þess að það er það sem við erum að gera með þessu frumvarpi.

Nú standa fyrir dyrum kjarasamningar á Íslandi. Ég trúi því innst inni að mál eins og þetta geti verið innlegg í kjarasamninga. Ég veit að útgjöld heimila til að koma sér upp þaki yfir höfuðið eru það snar þáttur í heildarútgjöldum heimilanna. Ef launþegasamtökin sjá fram á að verið sé að lækka þá byrði, verið sé að koma til móts við heimilin, þá trúi ég að það gæti haft áhrif á kröfugerð þessara aðila. Ég trúi því. Ef við myndumst nú til þess að koma vaxtastigi líka niður, eins og nauðsynlegt er, trúi ég því líka að fyrirtæki landsins geti verið betur í stakk búin til að taka á sig launahækkanir, launakröfur starfsmanna, vegna þess að fyrirtæki landsins eru náttúrlega undir það sama seld, að vera með verðtryggð lán. Fyrirtækin í landinu eru að verða fyrir nákvæmlega sömu búsifjum af verðtryggingu og heimilin út af fyrir sig. Ef þetta mál kemst fram trúi ég að það geti haft góð áhrif inn í komandi kjaraviðræður og það geti orðið einn svona lítill kubbur í það stóra Lego að koma á alvörustöðugleika.

Blikur eru á lofti um að verðbólgan sé að láta á sér kræla. Það gerist náttúrlega í undanfara kjarasamninga. Þá grípa fyrirtækin til þess að verja sig hugsanlegum og væntanlegum kjarahækkunum eða breytingum einmitt vegna þess að líkindi eru til þess að verðbólga aukist. Og þá er þetta mál, þetta frumvarp, enn brýnna fyrir vikið. Þær raddir hafa heyrst og ég hef heyrt þær raddir hvort tímasetningin á málinu sé rétt vegna þess að nú séum við á toppi hagsveiflu og við hljótum nú að síga niður á við eftir hana sem gæti þýtt að húsnæðisverð á Íslandi myndi lækka. Ég hef sagt: Meðan 17.000 íbúðir vantar á höfuðborgarsvæðinu einu saman, þá verður ekki lækkun á húsnæðisverði á Íslandi. Það er alveg víst. Ef við horfum aftur til lengri tíma, síðustu tveggja, þriggja áratuga, er það kannski á einum stað sem húsnæðisverð hefur lækkað þannig að eftir sé takandi. Það var í hruninu, árin 2008–2009. Að öðru leyti hefur fasteignaverð og húsnæðisverð haldið algerlega. Það er því engin hætta á því, að ég tel, þótt þessi breyting yrði gerð að málið snúist upp í andhverfu sína og fara að kosta þá sem taka lánin. Engin hætta er á því.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vænti stuðnings allra þingmanna við frumvarpið. Það er tímabært. Ég var spurður: Er þetta réttur tími? Svar mitt er: Hvenær er ekki réttur tími til að standa með heimilunum í landinu? Er einhver tími sem er ekki réttur til þess? Er einhver tími þar sem við eigum að láta hagsmuni heimila í landinu lönd og leið? Nei, sá tími er ekki til í mínum huga. Hann er ekki til. Því segi ég, hv. þingmenn: Ég vænti þess að hér fari fram góð umræða um málið, málið er stórt. Það er eitt af því stærsta sem við fáumst við á þessu þingi og við skulum afgreiða það með myndarskap. Við skulum senda málið til nefndar þar sem það fær góða og veglega umfjöllun. Við skulum taka viðræður við hagsmunaaðila í nefndinni. Við skulum heyra rök fjármálaaflanna fyrir því að þetta mál eigi ekki að fá framgang, við skulum heyra þau, við skulum leiða þau fram. Það verður líka athyglisverð umræða.

En fyrir alla muni, við skulum samþykkja frumvarpið. Við skulum taka saman höndum, hv. þingmenn, fyrir heimilin í landinu.