148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað aðallega til þess að leiðrétta formann nefndarinnar sem sagði að enginn hefði óskað eftir því að sjávarútvegsráðherra kæmi fyrir nefndina. Ég náði á hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, sem er við skyldustörf í kjördæmi sínu, og hann óskaði eftir því að sjávarútvegsráðherra kæmi fyrir nefndina, þannig að það sé nú bara sagt. Því hljótum við að lýsa vonbrigðum okkar með að því var ekki fylgt eftir, að ráðherra skyldi ekki hafa komið. Það er rangt hjá formanni nefndarinnar að ekki hafi verið beðið um að þessi ágæti ráðherra kæmi fyrir nefndina.

Það er hins vegar athyglisvert við þessa umræðu að ósköp lítið heyrist frá stjórnarþingmönnum. Maður hefur það svona á tilfinningunni að það séu alls konar skoðanir í flokkunum um þetta mál allt, en það virðist einhvern veginn vera búið að þagga niður í mönnum. Maður saknar þess svolítið að heyra ekki kröftuga þingmenn tjá sig.